140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að minna hv. þingmann á þetta sem forseti minntist hér á, en kvöldið er samt ungt.

Ég spyr hv. þingmann í kjölfar hans ágætu ræðu um það ákvæði sem lagt er til að kosið verði um í þeirri skoðanakönnun sem hér er gert ráð fyrir að lögð verði fyrir þjóðina, þ.e. ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt. Mér fannst mjög athyglisvert að heyra hjá hv. þingmanni um það mál. Ef eitthvað mismunar þegnum þessa lands er það einmitt aðgengi að opinberri þjónustu í landinu öllu óháð búsetu. Við vitum hversu mjög það er misskipt, við getum tekið heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum, við getum tekið flutningskostnað, aðgengi að menntun (Forseti hringir.) o.s.frv. — væri ekki nær að leggja fram spurningu þess efnis, frú forseti, hvort menn vilji í rauninni jafnrétti fólks óháð búsetu?