140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef nú eiginlega ekki skoðun á því hvort umorðun á spurningunni mundi valda breyttri niðurstöðu. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt þegar við ræðum þessi mál, hvort sem er að landið verði eitt kjördæmi, jöfnun atkvæða og annað því um líkt, að við skoðum hvernig þetta er í nágrannaríkjunum og horfum jafnvel til Evrópusambandsins, af því hv. þingmaður hefur verið svo hrifinn af því. Þar er ekki jöfnun atkvæða, ekki 100%. En það er mjög mikilvægt fyrir litla þjóð að hugsa, bæði innan sinnar þjóðar og í alþjóðlegu samhengi, út frá jöfnunarsjónarmiðunum.

Varðandi seinni spurninguna, hvort taka ætti út svarmöguleikann „tek ekki afstöðu“. Já, ég held að það væri ekki óskynsamlegt. Ég hef hins vegar meiri áhyggjur af því sem er hinum megin sem eru spurningarnar sjálfar, hvernig þær eru orðaðar. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því en hvort það er dálkur (Forseti hringir.) þarna inni sem snýr að því hvort fólk taki afstöðu eða ekki.