140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar stórt er spurt verður maður að vanda sig við svörin.

Hvað skal gera? Nú er það þannig að hér er hópur manna á Alþingi með umboð til að vera með meiri hluta í þinginu. Og eins og segir í 8. passíusálmi, held ég, að þessi sé þeirra tíminn, þá stjórna þau hér. Skoðun þeirra virðist mér vera sú að koma fram breytingum, umfangsmiklum breytingum á stjórnarskrá Íslands.

Það vekur hins vegar furðu mína, fyrst svo stór hópur fólks hefur brennandi áhuga á þessu máli, að það hafi ekki fengið hraðari og í rauninni vandaðri framgöngu hér í þinginu. Eins og ég kom inn á í máli mínu áðan er til dæmis þessi tillaga til þingsályktunar, sérstaklega greinargerðin með henni, afskaplega fátækleg og mjög erfitt að átta sig á hvort það sé einhver djúp hugsun á bak við þessar spurningar. Kannski er það, kannski er ég að ætla fólki of lítið, en það er vart hægt að gera annað þegar efnið er svona rýrt eins og kemur fram í tillögunni.

Ég verð hins vegar að segja að ég er ekki sammála hv. þingmanni að það að breyta og umbylta stjórnarskránni sé mikilvægasta málið sem við eigum að vera að taka okkur fyrir hendur í þinginu. Mér þætti mikilvægt og gott að leggja áherslu á að takast á við skuldavanda heimilanna, fjalla um það hvernig við ætlum að ná Maastricht-skilyrðunum, fjalla um það hvernig við ætlum að hætta að tala niður krónuna, vegna þess að það er staðreynd að við verðum með hana hérna næstu árin og það er ábyrgðarhluti að tala hana niður. Þetta eru þau mál sem mér þætti kannski mikilvægara að ræða hér.

En þessi er þeirra tíminn og þetta er það vinnulag sem stjórnarmeirihlutinn hefur valið sér (Forseti hringir.) og ég hélt fyrir fram, frú forseti, að vinnubrögðin yrðu vandaðri.