140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að leggja fram spurningu til þingmannsins varðandi 1. tölulið þar sem lagt er til að þjóðin verði spurð að því hvort Alþingi megi leggja fram frumvarp, sem er mjög einkennilegt. Lítur þingmaðurinn ekki svo á að við 63 þingmenn, sem vorum kosin í alþingiskosningunum 2009, höfum fullt umboð til að leggja fram frumvarp og að við þurfum ekki að spyrja þjóðina í því eins og kemur fram í spurningunni?

Í öðru lagi kom landskjörstjórn fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun og gerði verulegar athugasemdir við orðalag þeirra spurninga sem felast í þingsályktunartillögunni. Og meira að segja gekk landskjörstjórn svo langt að leggja það til að sá hluti í spurningu eitt verði felldur út sem hljóðar svo: „eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga.“

Landskjörstjórn lítur svo á að þar sem verið sé að biðja þjóðina um að Alþingi megi leggja fram frumvarp sé þetta ónauðsynlegt vegna þess að það ættu allir að vita og almenn vitneskja væri sú að frumvörp tækju alltaf breytingum í meðförum þingsins. Það var mjög athyglisvert að landskjörstjórn skyldi hafa farið yfir þetta svona, þannig að þá spyr ég á ný annarrar spurningar: Er það ekki alveg skýrt, ef farið verður að ráðleggingum landskjörstjórnar, að spurningin hljóði bara svo: Já, ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá — að ef þetta verður fellt verði þessari vinnu hent og þar með tillögu stjórnlagaráðs og skattgreiðendur sitji uppi með þann mikla kostnað sem hleypur á 700–1.000 milljónum nú þegar?