140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú átta ég mig ekki á hvers vegna meiri hluti nefndarinnar leggur fram annað orðalag en fram kemur í niðurstöðu stjórnlagaráðs. Ég þekki það ekki. Það þarf einfaldlega að spyrja þá sem leggja þetta fram þeirrar ágætu spurningar.

Í fljótu bragði mundi ég álykta að þetta væru bara mistök þeirra sem leggja tillöguna fram. Miðað við það sem ég hef heyrt frá þeim ágætu þingmönnum sem leggja þetta mál fram þá bera þeir virðingu fyrir því sem kom frá stjórnlagaráði og mín skoðun er sú að þeir hafi eflaust ekki í hyggju að útvíkka það á bak við tjöldin. Ég geri því ráð fyrir að það sé niðurstaðan án þess að ég vilji leggja mönnum orð í mun og hvet hv. þm. Pétur H. Blöndal til að spyrja þá sem leggja þetta mál fram þessarar góðu spurningar.