140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er seint liðið á kvöld og við erum að ræða grunn allrar lagasetningar í landinu, stjórnarskrána og meira að segja nýja stjórnarskrá sem kollvarpar í rauninni öllu öðru, og við ræðum um ferlið án þess að hafa rætt um efnið. Við ætlum sem sagt að setja eitt stykki stjórnarskrá óbreytta í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar sem ekki hefur farið fram efnisleg umræða hér, frú forseti, verður hún væntanlega ekki mikil annars staðar. Alþingi er búið að hafa þetta frumvarp í hálft ár núna.

Mig langar að fara efnislega í gegnum þetta frumvarp. Ég tel það vera nauðsynlegt, frú forseti, þótt ég hafi stuttan tíma og ekki nema fjórar mínútur eftir til að ræða efnislega um t.d. ferlið. Ég er búinn að fara í gegnum það að ef við mundum samþykkja frumvarpið mitt um að breyta fyrst 79. gr. fyrir næstu kosningar, það yrði bara síðasta mál, þá mætti þrem eða fimm mánuðum seinna fara fram kosning um þessa tillögu stjórnlagaráðs eða um það sem búið yrði að breyta, þá mundi gildistöku stjórnarskrárinnar einungis seinka um þrjá eða fjóra mánuði. Ég tel það þess virði til að þjóðin fái sjálf að greiða bindandi atkvæði um eigin stjórnarskrá. Ég held að menn ættu að skoða það ferli mjög vandlega að breyta fyrst 79. gr. og að henni breyttri væri síðan hægt að senda stjórnarskrána með öllum þeim þröskuldum sem ég hef byggt inn í það kerfi til þjóðarinnar en auðvitað gæti þingheimur lækkað þá þröskulda, þeir eru kannski fullháir.

Ég geri þá kröfu að 80% þjóðarinnar geti skilið stjórnarskrána. Það er kannski kjánaleg krafa en ég lít svo á stjórnarskráin sé til að vernda fólk og ef menn þurfa lögfræðinga til að túlka fyrir sig hvað ákvæðin þýða þá er það ekki vernd því að margir hafa ekki efni á dýrum lögfræðingum eða sérfræðingum til að túlka fyrir sig ákvæðin. Þau eiga að vera þannig að fólk skilji þau og það verður að gera kröfu til þess sem semur stjórnarskrá að hún sé skiljanleg.

Ég tel að megininntak stjórnarskrár séu mannréttindi og ég vil meira að segja að ríkið sé tæki til að framfylgja stjórnarskránni, tæki í höndum okkar, við stofnum ríki til að framfylgja stjórnarskránni, það hafi engan annan tilgang í sjálfu sér. Ríkið á að vernda stjórnarskrána. Mannréttindum er skipt í tvennt. Það eru mannréttindi sem verja okkur fyrir öðru fólki, þ.e. að engan megi drepa, ekki megi beita ofbeldi og ekki megi stunda mansal eða neitt slíkt eða hneppa fólk í þrældóm. Svo eru það mannréttindi sem gera kröfu á annað fólk, t.d. krafa barna á að foreldrar þeirra framfæri þeim og krafa öryrkja og þeirra sem minna mega sín á ríki og sveitarfélög um framfærslu. Það er krafa á annað fólk eða aðra hópa og hlýtur að vera háð landamærum vegna þess að í Sómalíu er sú krafa allt annars virði en hér á landi en fyrrnefnd mannréttindi sem verja okkur fyrir öðru fólki eru aftur á móti óháð landamærum.

Það er dapurlegt að hafa svona lítinn tíma, frú forseti. Uppbyggingu stjórnarskrárinnar vil ég hafa þannig að fyrst og fremst séu fororð, síðan mannréttindi af fyrstu gráðu og því næst mannréttindi af annarri gráðu. Svo komi undantekningar frá mannréttindum vegna þess að í mörgum greinum eru undantekningarnar svo viðamiklar að þær yfirtaka málið sjálft. Það er verið að segja frá einhverju, menn eigi rétt á þessu og hinu, og síðan koma undantekningarnar og yfirgnæfa grunnréttindin. Svo verði stofnað ríki til að framfylgja mannréttindunum og því skipt í þrennt í þrískiptingu valdsins o.s.frv., stjórnsýslu og svo breytingu á stjórnarskrá. Þannig mundi ég vilja hafa uppbygginguna í stjórnarskránni. Þetta finnst mér að menn þurfi að ræða þegar þeir breyta stjórnarskránni eða koma með eitt stykki nýja.

Svo er það kirkjuskipanin. Ég hygg að þegar þjóðin greiðir atkvæði um þetta mál og þegar því verður svo breytt þá verði að senda það ákvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nefnilega svo merkilegt að um leið og búið verður að samþykkja stjórnarskrána fer þetta ákvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu en hitt verður væntanlega að lögum.