140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér eru málin rædd í andarteppustíl vegna þess að okkur er gefinn svo lítill tími til að ræða þetta í þinginu, enn minni tími en í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem ég sit vegna þess að veturinn hefur farið í það að taka á móti gestum sem hafa raunverulega fundið þessu formi og þeirri málsmeðferð sem ríkisstjórnin hefur beitt í þessu máli flest til foráttu.

Efnislegar umræður um skýrslu stjórnlagaráðs hafa ekki farið fram í þinginu eins og þingmaðurinn bendir á. Hann er til dæmis að fara efnislega ofan í mannréttindaákvæðin og annað sem eru mjög frjálslega túlkuð. Upplýsist það hér og nú, vegna þess að ég sit í nefndinni, að það hefur verið talið að mannréttindakaflinn sem stjórnlagaráð skrifaði sé of víðtækur og veiti raunveruleg réttindi fyrir alla því að það hefur verið mikil ánægja með mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem er í gildi á Íslandi og kominn dómaframkvæmd á hann.

En spurningin snýr kannski fyrst og fremst, út af því að þingmaðurinn fór inn á það, að ákvæði um þjóðkirkjuna. Það hefur komið í ljós að stjórnlagaráð tók friðinn fram yfir ófriðinn og sleppti því að koma með afgerandi tillögu um breytingar á þjóðkirkjunni í stjórnarskrá. Þar sem verið er að telja bæði þingmönnum og þjóðinni trú um það að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fjalla um tillögur stjórnlagaráðs er þá ekki undarlegt að allt í einu sé komið inn í þessar tillögur ákvæði um þjóðkirkjuna? Jafnframt má velta því upp, sem þingmaðurinn fór yfir, að fyrst verið er að leggja til að fara með breytingu á skipun þjóðkirkjunnar innan stjórnarskrárinnar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort þau úrslit geti hugsanlega orðið að atkvæðagreiðsla um þjóðkirkju og breytingu á henni í núgildandi stjórnarskrá verði bindandi.