140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst sjálfsagt í máli mínu áðan að koma inn á það að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur kynnt sér þessi mál mjög vel eins og hann kom inn á þegar hann skilaði umsögn um þetta mál á sínum tíma. Það er því dálítið sérstakt að fylgjast með því þegar stjórnarliðar halda því fram að þeir sem fjalla um þessi mál eins og hv. þingmaður hefur gert — Pétur H. Blöndal hefur farið mjög vel yfir þessi mál í ræðum sínum — þá sé það á þeim forsendum að þeir vilji engar breytingar. Því er haldið fram að þeir þingmenn sem vilja koma fram við stjórnarskrána af meiri virðingu en ríkisstjórnin gerir vilji ekki ljá máls á neinum breytingum á stjórnarskránni. Það verður varla sagt um hv. þingmann því að hann hefur léð máls á ýmsum breytingum bæði á stjórnarskránni og íslensku samfélagi.

Það er mjög sérstakt þegar maður fylgist með því að ríkisstjórnin er að reyna að draga upp þá mynd að þeir sem vilji vinna hlutina faglega — vilji koma fram við stjórnarskrána af virðingu og viðurkenna hana sem grundvöll samfélagsins sem þurfi að nálgast af virðingu, í breiðri sátt og með því að fá sem flesta að borðinu — vilji engu breyta í íslensku samfélagi. Er þá hæstv. ríkisstjórn ekki komin með stjórnarskrána í pólitískan leik og notar þetta mál í pólitískum tilgangi?

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér hvað þetta snertir. Ef svo er, ef hv. þingmaður er sammála mér, spyr ég hann hvort það sé ekki mjög alvarlegt að þetta grundvallarplagg þjóðarinnar, grunnur íslensku þjóðarinnar, sé komið á þær villigötur sem ríkisstjórnin er að teyma málið inn á.