140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Pétri H. Blöndal, og lýsa mig algerlega sammála því að ef einhvern tíma er ekki rétti tíminn til að endurskoða stjórnarskrá frá grunni þá er það þegar þjóðfélagið er í uppnámi eins og við getum sagt. Þingmaðurinn fór ágætlega yfir það í ræðu sinni hvað gerðist í búsáhaldabyltingunni og það sem við höfum verið að glíma við eftir efnahagsþrengingarnar sem við urðum fyrir. En það er ekki þannig hjá þessum ágæta stjórnarmeirihluta. Hv. þm. Róbert Marshall sagði til dæmis í dag: Það vill svo heppilega til að 30. júní fara forsetakosningar fram. Þá er um að gera að nota tækifærið, telur það fólk sem stendur að þessari þingsályktunartillögu. Það er ástæðan fyrir því að við erum hér klukkan að verða 11 og sér ekki fyrir endann á þessari umræðu. Það er ástæðan fyrir því að við erum í spreng að gera þetta með öllum röngum aðferðum, þ.e. að svo heppilega vill til að það eru forsetakosningar og það á að nota ferðina.

Hæstv. forsætisráðherra hefur meira að segja komið hingað og sagt: Við spörum þjóðinni 250 millj. kr. ef við gerum þetta samhliða forsetakosningunum, og ég ætla aðeins að fá að gera athugasemd við það.

Í fyrsta lagi er það ekki lögmál að fara þurfi út í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hér hefur verið rakið og ég hef of stuttan tíma til að endurtaka það. Það er ekki eins og ekki hafi verið haft samráð við þjóðina um þetta mál og vísa ég þá meðal annars í þjóðfundinn.

Í öðru lagi hefur enginn sýnt fram á það, og það er eitt af því sem nefndin þarf að skoða nú á milli umræðna, hver aukakostnaðurinn verður vegna þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningunum. Hvað kostar það að vera með aukafólk í talningu, aukakjörstjórnir, aukaatkvæðaseðla, aukakynningarefni, aukaútvarps- og sjónvarpsþætti, hvað eina sem þarf að gera þegar kosningabarátta er háð, hver er kostnaðurinn við það? Það er algert grundvallaratriði að áður en þessi tillaga kemur til atkvæða, hvenær sem það verður, að sú kostnaðaráætlun liggi fyrir. Ég fer fram á að hún verði fyrirliggjandi fyrir síðari umræðu þessarar tillögu.

Svo er það hitt, sem lítið hefur verið rætt í þessari umræðu, og það eru áhrifin á sjálfa forsetakosningabaráttuna og áhrifin á frambjóðendurna sem væntanlega munu gefa kost á sér og þá umræðu sem fer fram í aðdraganda þeirra kosninga. Um hvað snúast þessar forsetakosningar? Ég heyrði viðtal við stjórnmálafræðing í útvarpinu í gær og hann nefndi þá frambjóðendur sem nú eru í umræðunni. Það er mikið talað um að það sé kominn tími til að kona gefi kost á sér og þær eru nokkrar sem hafa lýst sig áhugasamar um það. Þá tók hann sérstaklega fram að ákveðin nostalgía væri fólgin í þeirri umræðu, þ.e. að í tíð núverandi forseta hefði embættið óumdeilt orðið meira pólitískt og það væri ákveðin nostalgía eftir forseta sem væri sameiningartákn og væri meira að fjalla dagsdaglega um börn og tré; og þetta eru hans orð sem ég endurtek hér.

Ég er ekki viss um að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla muni skila þjóðinni slíkum forseta. Hver og einn einasti forsetaframbjóðandi sem gefur kost á sér, verði þessi þjóðaratkvæðagreiðsla samhliða, mun verða undirlagður af spurningum: Hvað finnst þér um persónukjör? Hvað finnst þér um náttúruauðlindir í þjóðareign? Finnst þér að tillögur stjórnlagaráðs eigi að verða grundvöllur að nýrri stjórnarskrá o.s.frv.? Það er hætta á því að forsetakosningabaráttan snúist um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki um það að Íslendingar séu að velja sér þjóðhöfðingja.

Tími minn er á þrotum og þykir mér það mjög miður vegna þess að margt er eftir órætt. En ég lýk hér máli mínu.