140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem ég tel mjög gagnrýnisvert við þessa tillögu er einmitt það hvaða spurningar eru þarna og hvaða spurningar ekki. Ég deili því sjónarmiði hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að þjóðin ætti að fá tækifæri til að kjósa um hvort hún vilji halda aðildarferlinu að Evrópusambandinu áfram eða ekki. Ég var þeirrar skoðunar þegar við vorum með umsóknina sjálfa til umfjöllunar og taldi að þjóðin ætti að fá tækifæri til að greiða atkvæði um það á þeim tímapunkti áður en sótt var um.

En það eru aðrar spurningar sem að ég tel að vanti þarna. Ég var að ræða áðan um forsetakosningarnar. Af hverju er ekki spurt sérstaklega um málskotsréttinn? Af hverju er ekki spurt sérstaklega um hlutverk forsetans? Það eru þó þau atriði sem mest hefur verið deilt um í stjórnarskránni á liðnum árum, deilt um túlkun á þeim atriðum. Síðan, og ég nefndi það í fyrri ræðu minni í dag, þá finnst mér borðleggjandi að það vanti spurningu: Telur þú að núgildandi stjórnarskrá eigi að vera áfram í gildi? Telur þú þörf á að gera dramatískar breytingar á stjórnarskránni? Telur þú að þær breytingar sem þurfi að gera séu í íhaldssamari kantinum? Það væri endalaust hægt að finna fleiri spurningar til að bæta í þennan lista en punkturinn er sá að við erum með grunn. Ef menn vilja skoða tillögu stjórnlagaráðs þá erum við með (Forseti hringir.) þann grunn til að vinna úr. Við þurfum ekkert að spyrja þjóðina einmitt á þessum (Forseti hringir.) tímapunkti um þær tillögur.