140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það hefur verið farið víða í umræðunni í dag um þessa þingsályktun um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það sem mig langar að beina til hv. þingmanns og velta upp í þessu fyrra andsvari er fyrsta spurning í 2. lið, þ.e. hvort viðkomandi vilji að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign. Í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því að náttúruauðlindir verði í þjóðareign að undanskildum þeim sem varðar eru eignarrétti. Nokkur umræða hefur verið um akkúrat þennan lið í dag til marks um hversu loðið og sérstakt orðalagið er á þessum spurningum.

Hvort telur hv. þingmaður að flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu séu að velta fyrir sér að ganga lengra en tillögur stjórnlagaráðs gera ráð fyrir um náttúruauðlindir í þjóðareign, þ.e. að þá eigi allar náttúruauðlindir, líka þær sem eru varðar eignarrétti, að vera í þjóðareign, eða að þarna sé einfaldlega um léleg vinnubrögð að ræða, ekki hafi verið búið að vinna málin nægilega vel? Hvort heldur sem er þá er það mjög alvarlegt. Það væri fróðlegt að fá að heyra frá hv. þingmanni hvort hún telji að flutningsmenn tillögunnar séu virkilega að velta því fyrir sér að víkka þetta út fyrir það sem varið er eignarrétti eða hvort þetta sé orðað svona vegna þess að vinnubrögðin séu ekki nægilega góð.