140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:05]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að allir flokkar á þingi vilja að náttúruauðlindir séu skilgreindar sem þjóðareign að undanskildum þeim sem varðar eru eignarréttarákvæðum. Hv. þingmaður kom einmitt inn á það í máli sínu að þá hlytu að vera einhverjar aðrar hvatir sem byggju að baki því að hafa þetta inni, pólitískur tilgangur hugsanlega. Þá veltir maður því óneitanlega fyrir sér á hvaða vegferð við erum þegar stjórnarskrá þjóðarinnar, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, sem er eitt grundvallarplagg íslensks samfélags, grundvallarplagg hverrar þjóðar, er komin á þær villigötur og umræða um breytingar á henni að það sé notað í pólitískum tilgangi.

Það eru mörg mál sem er hægt að deila um og menn deila um flokka á milli, stjórn og stjórnarandstaða, en stjórnarskráin á að vera hafin yfir það og breytingar á henni. Það er ástæða fyrir því að breytingar á stjórnarskrá þarf að gera með því að kosningar líði á milli. Það er meðal annars á þeim forsendum að vinna þarf með þeim hætti að víðtæk sátt náist um það af því að þetta er grundvallarplagg allra. Þetta er grundvallarplagg allra flokka, allra Íslendinga, allrar þjóðarinnar. Þá er mjög sérstakt að fylgjast með því þegar svo er um pottinn búið.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann að varðandi þetta og fá bara ítrekun á því hjá hv. þingmanni er hvort hún telji að ríkisstjórnin sé virkilega að draga þetta mál upp í pólitískum tilgangi og á hvaða vegferð við erum þá og hvort þetta sé virkilega hluti af því nýja Íslandi sem allir eru að reyna að byggja upp eftir bankahrunið (Forseti hringir.) sem varð, að taka stjórnarskrána í þennan (Forseti hringir.) pólitíska leik, hvort það sé (Forseti hringir.) hluti af þessu nýja Íslandi sem við erum að reyna að byggja upp.