140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ræðu, sérstaklega vegna þess að hv. þm. Illugi Gunnarsson kom inn á ákvæðin um náttúruauðlindirnar. Ég benti á það í ræðu hér í kvöld, eins og þingmaðurinn, að ekki er búið að finna allar þær auðlindir sem í landgrunni okkar, á landi eða í lofti er að finna. Dæmi um splunkunýjar auðlindir á Íslandi eru loftslagskvótinn og hin nýja auðlind sem gerði sér lítið fyrir og synti inn í lögsöguna okkar, makríllinn. Varðandi það að þetta skuli vera í þjóðareign samkvæmt þessari þingsályktunartillögu hef ég bent á að það var ekki þannig orðað frá stjórnlagaráði því að tillögur þess gerðu ráð fyrir því að auðlindir í einkaeigu væru undanþegnar þessu þjóðarákvæðisorði sem stjórnlagaráð sá sér ekki fært að túlka. Þjóðareignarhugtak hefur verið deiluefni lögfræðinga og lögfræðinnar um langt skeið. Stjórnlagaráð kaus að fara í friði í stað ófriðar og kom sér saman um niðurstöðu til að líta betur út en þingið sjálft. Hér er alltaf verið að tala um að séu miklar deilur.

Í framhaldi af þessu langar mig að spyrja þingmanninn um hugtakið sem hann fór lítillega yfir: Hvernig túlkar hann hugtakið þjóðareign? Er þjóðareign eign ríkisins og sveitarfélaganna? Er þjóðareign eign ríkisins, sveitarfélaganna og eignir einkaaðila? Er þjóðareign eign útlendinga hér á landi og falla þeir undir hugtakið, (Forseti hringir.) þeir sem eru búsettir hér á landi og falla undir hugtakið Íslendingar með lögheimili erlendis eða búsettir erlendis?