140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru grundvallaratriði sem hv. þingmaður hreyfir hér. Ég lít svo á að hugtakið þjóðareign sé í raun og veru gagnslaust sem lögfræðihugtak í eignarréttarlegum skilningi. Aftur á móti getur þetta hugtak haft merkingu hvað varðar fullveldisrétt ríkisins og yfirráðarétt þess með þeim hætti sem snýr meðal annars að samskiptum við önnur ríki. Sem dæmi held ég að segja megi, og menn geti verið sammála um það, að íslenska þjóðin eigi íslenska landið. Það kemur ekki í veg fyrir að það sé séreignarréttur bænda á jörðum þeirra. Með öðrum orðum hefur íslenska ríkið rétt til þess að setja ýmis lög sem meðal annars takmarka eignarrétt bænda á jörðum sínum, en það upphefur ekki þar með séreignarréttinn sem um þær jarðir gildir.

Þess vegna væri að mínu mati hættuspil að setja inn í stjórnarskrána þann texta að um væri að ræða þjóðareign á öllum náttúruauðlindum sem ekki eru nú þegar í séreign ef það er sá skilningur sem menn leggja í þessa spurningu sem fram er lögð í þingskjalinu.

Ég tel ekki bara vandræði fólgin í þessari framsetningu um þjóðareignina hvað varðar hið lögfræðilega hugtak heldur líka, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur bent á, að þá koma auðvitað upp alls konar spurningar um þá dóma Hæstaréttar sem gengið hafa á sviði eignarréttar og samspil þeirra við (Forseti hringir.) eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og hvernig þeim muni farnast.