140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:21]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þær athugasemdir sem hér hafa fallið eru skynsamlegar að mínu mati. Það er ábyrgðarhlutur að setja inn í stjórnarskrá ákvæði sem eru jafnóljós og jafnumdeild meðal fræðimanna og hugtakið þjóðareign. Það sem mér þykir verst, frú forseti, er að flutningsmenn tillögunnar hafa við þessa umræðu ekki gert hina minnstu tilraun til að skilgreina þetta hugtak þannig að hægt sé að styðjast við skoðanir þeirra og þá að kjósendur síðar meir hafi þá einhvern leiðarvísi frá þeim sem lögðu þetta mál fram um hvað átt er við með hugtakinu þjóðareign.

Það er alveg furðulegt að fleiri talsmenn (Forseti hringir.) þessarar þingsályktunartillögu hafi ekki komið fram og gert í það minnsta tilraun til að ræða þetta. (Gripið fram í: Rétt.)