140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir mjög hressandi umræðu um eignarréttinn. Það vill gleymast í amstri dagsins hvers virði eignarrétturinn er og hvaða gildi hann hefur. Ég bendi á bók eftir nóbelsverðlaunahafann de Soto, The Mystery of Capital, Furður fjármagnsins. Þar sem bent er á að um allan heim eru mikil verðmæti og miklar eignir en þær eignir gefa engan arð eða eru mjög erfiðar vegna þess að eignarrétturinn er ekki viðurkenndur. Það er alls konar gervieignarréttur í gangi, jafnvel glæpagengi sem viðhalda og tryggja eignarréttinn. Eignarrétturinn er hins vegar mjög mikilvægur í velsæld og hagsæld þjóðanna.

Mér finnst núverandi hæstv. ríkisstjórn Íslands hafa gleymt þessu atriði að einhverju leyti eins og frumvarpið um kvótann, sem var dreift hér í gær, ber skýrt merki um. Undirstaða hagvaxtar, velmegunar og þess að lýðræði fái staðist er einmitt eignarrétturinn og þess vegna er hann í stjórnarskránni. Það er spurningin hvort óljós hugtök eins og „auðlindir eru sameign þjóðarinnar“ grafi ekki undan þessa skýra eignarréttarákvæði sem er í stjórnarskránni.

Ég spyr hv. þingmann hvort við séum ekki á villigötum, t.d. um kvótann. Eins og frumvarp hæstv. ríkisstjórnar lítur út er kvótinn sameign þjóðarinnar — og hver skyldi vera fulltrúi þjóðarinnar? Það er hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hann er allt í einu orðin þjóðin. Það minnir á það sem sagt var í gamla daga: Ég er ríkið. Þá getur hann sagt: Ég er þjóðin.