140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:24]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mergur málsins að það er einmitt ríkið sem fer með eignarréttinn þó að menn kalli það þjóðareign. Þá segi ég enn og aftur: Það er skynsamlegra og gifturíkara fyrir þjóðina að orða hlutina þannig inn í stjórnarskrána, ef það er ætlunin að setja slíkt ákvæði, að allar náttúruauðlindir séu eign ríkisins. Hitt er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á og ég tek heils hugar undir, það er samhengi á milli lýðræðis og eignarréttar. Ég bendi á þá umræðu og þær reynslusögur sem til eru um þessa þætti.

Frú forseti. Það er til dæmis mjög áhugavert að skoða þróunina annars vegar á Englandi og hins vegar í Rússlandi. Það sem er áhugavert við eignarréttinn eins og hann var hugsaður á Englandi og hvaða áhrif það hafði á stjórnskipun þess lands er að menn gátu átt jarðir sínar og það takmarkaði á töluvert löngum tíma vald konungsins. Á sama tíma geta menn horft á þróunina sem var í Rússlandi þar sem hugsunin var sú að einungis guð ætti landið. Keisarinn sem þáði vald sitt frá guði var þar með alvaldur. Hið efnahagslega vald hans var þess vegna miklu meira en vald konunganna á Englandi. Þannig þróaðist þingræðið og þannig á lýðræðið sér von þegar saman fer fyrirkomulag og skipulag kapítalismans, sem er grundvallaður á eignarrétti og réttarríkinu, og hins vegar réttindi fólksins í lýðræðinu. Þessir þættir hanga saman og geta ekki hvor án hins verið, frú forseti.