140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[00:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið rætt mikið hér í dag og farið yfir það efnislega með mjög víðtækum hætti. Það má segja að það blasi við öllum hve ferill málsins er með miklum ólíkindum og sú auma vegferð sem ríkisstjórnin hefur verið á í mikilvægri vinnu við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Það má segja að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki í verkum sínum tileinkað sér þau vinnubrögð sem hver forustumaður ætti að gera í svo veigamiklu máli. Í þessu máli hefur ekki verið í gildi það sem verður að vera í forgrunni við vinnu á stundaskrá sem er sáttatónn.

Á stundum er manni nær að halda að allt þetta óðagot sé helst til þess fallið að reyna að draga athygli frá öðrum brýnum málum sem brenna á þjóðinni. Því hefur verið haldið fram hér í umræðunni oft og tíðum vegna andstöðu okkar sjálfstæðismanna við þessa málsmeðferð að við viljum ekki breyta neinu í stjórnarskránni, viljum ekki stuðla að breytingum á henni. Þetta er náttúrlega alrangt, við höfum ítrekað sagt það og þetta er einn af þeim þáttum sem notaðir eru til að villa um fyrir umræðunni í þessu máli sem svo mörgum öðrum.

Það var jú að tillögu sjálfstæðismanna sem þjóðfundurinn var haldinn til að leita til þjóðarinnar, þúsund manna fundur sem haldinn var í Reykjavík. Okkar tillaga gekk reyndar lengra, við vildum að haldnir yrðu fundir úti um allt land þar sem tekinn yrði púlsinn á þjóðinni og þannig væri aðkoma hennar að þessari vinnu. En það má segja að meiri hluti þingsins sé búinn að koma þessu máli, eins og svo mörgum öðrum, í ógöngur og í mikið ósætti. Það er eins og ekkert mál geti komið frá hæstv. ríkisstjórn, ekkert veigamikið mál í það minnsta, öðruvísi en að það þurfi að vera í miklu ósætti og það á ekki síður við innan dyra hjá henni sjálfri en hér á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Hvað býr hér að baki? Það hefur margt verið reifað í þeim efnum. Getur verið að hér sé um að ræða pólitísk hrossakaup? Getur verið að stuðningur Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina sé í raun sá grunnur sem er að því að þetta mál er keyrt svo hratt fram sem raun ber vitni? Það er alla vega alveg ljóst að margir hv. stjórnarliðar hafa enga trú á þeirri vegferð sem þeir eru að taka þátt í hér. Í allt of mörgum málum virðist veikleiki ríkisstjórnarinnar ráða för, þ.e. allt of margir hafa líf þessarar ríkisstjórnar í hendi sér. Þær hótanir sem stjórnað er með hér hafa verið svo augljósar í mörgum málum, hér hefur þurft að gefa eftir og fara fram með ólíkindum oft og tíðum vegna þeirra hótana sem hanga í loftinu. Við sjáum þetta núna í mjög veigamiklum málum eins og sjávarútvegsmálunum, málum um nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp, og ekki síður í umfjöllun um rammaáætlun.

Fullyrt hefur verið hér að Alþingi geti ekki náð saman, þrátt fyrir tilraunir, um að fara í breytingar á stjórnarskránni. Það er auðvitað alrangt. Hér hafa verið gerðar breytingar og farið í vinnu við breytingar í gegnum árin og áratugina sem hafa skilað ágætisárangri. Hér var í gangi mikil vinna við að gera breytingar á stjórnarskránni, vinna sem hefði alveg örugglega verið hægt að byggja á eða taka tillit til í framhaldinu. Það hefði verið farsælasti vegurinn að fá til liðs við okkur sérfræðinga ásamt þingmönnum til að vinna úr þeim gögnum sem liggja fyrir, bæði eftir þjóðfundinn og þá miklu vinnu sem hafði verið unnin hér fyrir nokkrum árum, og meta niðurstöður þess og setja síðan fram tillögu að breytingum á einstökum liðum eða köflum stjórnarskrárinnar.

Breyting á stjórnarskrá er ekkert sérmál einhverra stjórnmálaflokka. Breyting á stjórnarskrá er stórmál sem snertir alla og það skiptir ekki máli hvort breytingar á stjórnarskrá eru framkvæmdar í því tilliti árinu fyrr eða seinna. Það sem skiptir máli er að þjóðin og þingið átti sig á hvað um er að ræða. Til þess þarf ítarlegar umræður og yfirferð sérfræðinga á þessu sviði. Leiðarljós í slíkri vinnu verður að vera sáttfýsi þannig að í breytta stjórnarskrá fari ákvæði sem sæmilegt samkomulag getur verið um. Þannig haga þjóðir vinnu við breytingar á sinni stjórnarskrá.

Stjórnarskrá lýðveldisins er hornsteinn samfélagsins og á að standa sem slík um langan tíma. Þau vinnubrögð sem hér er boðið upp á geta engan veginn talist samboðin þeim sem einhverja virðingu hafa fyrir grunngildum samfélagsins. Það er á þeirri forsendu kannski fyrst og fremst sem við í stjórnarandstöðunni, þ.e. sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, stöndum hér og gagnrýnum þessi vinnubrögð.

Því er haldið fram að við höfum bara tekið upp dönsku stjórnarskrána og að henni hafi aldrei verið breytt. Þetta er auðvitað ekki rétt. Stjórnarskrá okkar, rétt eins og stjórnarskrá Dana, byggir á öðrum vestur-evrópskum stjórnarskrám og hefur tekið ákveðnum breytingum eftir samfélagsþróun í gegnum áratugina. Hvernig hefur tekist til hjá okkur með þessa stjórnarskrá á stuttum lýðræðistíma þjóðarinnar, tíma þar sem við höfum stuðst við í grunninn þá stjórnarskrá sem við settum okkur við stofnun lýðveldisins og ekki verri en raun ber vitni? Við höfum haft lýðræði sem hornstein samfélagsins og hvorki það né þeir sem hafa stjórnað eftir því á hverjum tíma hafa brugðist meira en raun ber vitni. Það ber allt samfélag okkar merki um. Hér hefur tekist að byggja upp vænlegt samfélag sem er gott að búa í. Það blæs vissulega á móti um stund og við erum langt frá því að vera sammála um leiðir sem eru vænlegastar til að ná árangri, vænlegastar til að við náum vopnum okkar aftur til að geta hafist handa við að slá í bresti. Stjórnarskrá lýðveldisins hefur ekkert með það að gera, hún er ekki lykillinn að þeim lausnum. Eins og hún stendur í dag þarf hún ekki að trufla verkið við endurreisn efnahagslífs okkar. Þetta er vandasamt verk og það verður að gefa því þann tíma sem þarf.

Af hverju eru þessi vinnubrögð? Hverju þarf að breyta? Það er alveg ljóst að sumir hópar í samfélaginu kalla á grundvallarbreytingar og margar þær spurningar sem eru lagðar fram í þeirri þingsályktunartillögu sem við erum að fjalla um hér bera þess glöggt merki að menn vilja þvæla þessa umræðu. Menn vilja hafa málin í ákveðinni þoku og það hvarflar auðvitað að manni að hér búi eitthvað meira að baki.

Það er oft þannig og blasir svolítið við í þessu máli að mestan skaða gera þeir sem vilja og þykjast kunna ráð við öllum vanda en skortir þekkingu og raunsæi. Við búum ekki í tilraunastöð, alþingismenn, heldur í samfélagi lifandi manna og hvert okkar skref getur ráðið úrslitum um heill samfélagsins. Það verður því að hefja vinnu við breytingar á stjórnarskrá okkar upp úr þeim farvegi sem oft einkennir ágreiningsmál, önnur ágreiningsmál í þinginu, og það er ekki hægt að bera þetta mál saman við neitt annað í þeim efnum.

Alþingi setur klárlega mikið niður með þessum vinnubrögðum og það gerist á þeim tímum þegar nauðsynlegt er að hefja upp virðingu Alþingis gagnvart þjóðinni. Ég vil segja það með fullri virðingu fyrir mörgum hv. alþingismönnum að þeir hafa alls ekki haft möguleika á að gera sér fyllilega grein fyrir því hvaða samfélagslegu og lagalegu áhrif eru af þeim breytingum sem lagðar eru til í tillögum stjórnlagaráðs. Til þess hefur allt of lítil efnisleg umræða farið fram um málið og sá mikli ágreiningur sem er milli margra okkar helstu sérfræðinga sem hafa tjáð sig í riti og ræðu um málið og málsmeðferðina er því til staðfestingar.

Niðurstaðan er því sú, virðulegi forseti, að þessi málsmeðferð er algjörlega óásættanleg. Fari málið til nefndar eftir þessa umræðu í þinginu vona ég að hv. nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins sjái sóma sinn í því að taka nú málið til ítarlegrar umfjöllunar og setja þessa vinnu í allt annan farveg, vinnu þar sem spurt er miklu dýpri spurninga en spurt hefur verið við þá vinnu sem fram hefur farið fram að þessu. Það getur engan veginn talist ásættanlegt að málið verði afgreitt á Alþingi í þessari viku eftir svo stutta umfjöllun og að taka þá ákvörðun að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem gerir kröfu á vandaða málsmeðferð. Hún er ekki til staðar í þessu máli. Þetta er miklu stærra mál en svo, virðulegi forseti, að hægt sé að binda það við forsetakosningar í sumar. Forsetakosningar koma kosningum um atriði í stjórnarskrá lýðveldisins ekkert við.