140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[00:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ástæða er til að elta ólar við allt sem fram kemur en ég veit ekki betur en að ég og raunar flestir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi mætt á alla fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem haldnir hafa verið um þetta mál. Ef hv. nefndarformaður er að vísa til þess að við fengum tilmæli frá 21 fulltrúa í stjórnlagaráði um að koma og hitta þá, sennilega föstudaginn 9. mars, átti ég ekki heimangengt þá. En þá var ekki um að ræða fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, svo því sé haldið til haga.

Síðan má líka velta því fyrir sér hvort það hafi verið hlutverk stjórnlagaráðsins, miðað við þingsályktunartillöguna sem var samþykkt hér 22. febrúar, að fjalla um spurningar sem bera á undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er veruleg spurning. Á þeim forsendum hafna ég algjörlega ummælum hv. þingmanns um að við höfum ekki viljað vera með í umræðunni.

Hins vegar hefur það auðvitað verið þannig af hálfu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að á síðustu metrunum — ég tek það fram að framan af vetri var samstarfið allgott í nefndinni — var tilboðið til okkar í stjórnarandstöðuflokkunum á þessa leið: Þið megið vera með ef þið eruð með í okkar leik á okkar forsendum. Þannig hefur samráðið verið.

En við munum að sjálfsögðu nýta okkur rétt til að koma að umfjöllun þegar málið kemur formlega til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar milli umræðna (Forseti hringir.) og koma með þær breytingartillögur sem við teljum ástæðu til að koma með þegar sá tími er kominn.