140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[00:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma upp í andsvar við hv. þm. Birgi Ármannsson vegna þess að hér í lok umræðunnar inn í nóttina eru að koma fram nýjar upplýsingar frá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ég vil jafnframt benda á það að ég tók ekki þátt í sameiginlegum fundi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og stjórnlagaráðs því að ég lít svo á að þingmenn eigi að fá til sín gesti en ekki eigi að bjóða nefndum þingsins út í bæ til fundar. Ég gerði skýra grein fyrir því þannig að það á ekki að koma formanni nefndarinnar á óvart.

Úr því að ég er í andsvari við hv. þm. Birgi Ármannsson þá er kannski hægt að telja á fingrum annarrar handar þá sem gætu hafa komið að því að semja spurningarnar með þeim sex þingmönnum sem leggja fram þingsályktunartillöguna. Nú hefur hv. þingmaður þegar beðið um að þeir aðilar komi fyrir nefndina og er það vel og líklega eru þeir í startholunum til þess. En það koma ekki margir til greina og ég vil spyrja þingmanninn hvort hann sé ekki undrandi á því hvað þeir gestir sem koma til greina voru raunverulega andsnúnir þeim spurningum sem lágu fyrir nefndinni. Þær voru teknar efnislega fyrir í nefndinni og þessir aðilar nefndu til dæmis að spurningin um þjóðkirkjuna væri ekki í takti við hinar spurningarnar, og lýstu undrun yfir því að hér væri verið að framselja vald Alþingis til að leggja fram frumvörp á þinginu til þjóðarinnar, vegna þess að ég tel að sú heimild hafi verið fengin þingmönnum í síðustu alþingiskosningum.