140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[01:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Þegar farið er fram á atkvæðagreiðslu finnst mér ákaflega mikilvægt að allir þingmenn viti að hún standi til. Mér virðist, menn eru alltaf að læra eitthvað nýtt, að hér hafi verið beitt þeim klækjabrögðum að fara fram á atkvæðagreiðslu og síðan hafi tilteknir þingmenn farið úr húsi í því augnamiði, án þess að ég fullyrði neitt um þeirra ætlun, að koma í veg fyrir að lögleg atkvæðagreiðsla gæti farið fram.

En ég ætla líka að benda á að það var ekki sérstaklega margt gert af hálfu þingsins til að reyna að fá aðra þingmenn, sem ekki þurftu að fara heim til sín af þessu tilefni, í þinghúsið til að greiða atkvæði. Ég er þingmaður utan flokka og ég fékk ekki senda eina einustu tilkynningu um að atkvæðagreiðsla stæði fyrir dyrum. Ég heyrði af henni frá samþingmanni og ég fór náttúrlega fram á að mér yrði send tilkynning formlega af hálfu þingsins um (Forseti hringir.) að hér ætti að fara fram atkvæðagreiðsla. Ég velti því fyrir mér, og það er þá annað sem ég hef lært hérna: Er það ekki meginregla hér að þegar atkvæðagreiðsla fer fram að öllum þingmönnum (Forseti hringir.) sé send tilkynning um það? Hvernig eigum við annars að (Forseti hringir.) axla ábyrgð okkar og skyldur?