140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[01:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið vil ég upplýsa hv. þingmenn um að þetta er nú ekki alveg fordæmalaust og er samkvæmt ákvæði í þingsköpunum sem ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að lesa hér. (MÁ: Að þið gangið út?) Það er að finna (Gripið fram í.) í 3. mgr. 45. greinar þingskapalaga:

„Er fyrri umræðu er lokið gengur tillagan til síðari umræðu og þeirrar nefndar er forseti leggur til. Atkvæða skal þó leitað ef einhver þingmaður óskar þess, svo og ef önnur tillaga kemur fram um til hvaða nefndar málið fari.“

Varðandi þá fullyrðingu að ekki hafi verið send tilkynning til þingflokks Sjálfstæðisflokksins er hún röng. Það var send tilkynning til þingmanna Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) um að atkvæðagreiðsla væri á dagskrá. (Gripið fram í.) Það er mjög undarlegt að verða vitni að þessu upphlaupi (Gripið fram í.) vegna þess að þegar … (Gripið fram í.)

Frú forseti.

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Þegar ekki eru nægilega margir þingmenn í húsi er venjan sú að atkvæðagreiðslu er frestað þar til á næsta þingfundi. (Forseti hringir.) Ef málið sem hér um ræðir væri ekki svo afskaplega mikið í spreng hefði það ekki skipt máli. Þess vegna ættu menn að lesa þingsköpin og skoða fordæmin sem um ræðir.