140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[01:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá hversu margir þingmenn eru þó komnir hingað. (Gripið fram í.) Í dag stóð yfir umræða um mjög mikilvægt mál, um stjórnarskrá og breytingar á stjórnarskrá, og það voru ekki margir þingmenn í salnum. Reyndar var það þannig að oft var bara einn eða tveir þingmenn og jafnvel bara ræðumaður í salnum.

Það er alrangt sem sagt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi hér reynt að koma í veg fyrir framgang málsins, að það gæti farið í einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslu. Hitt kom aftur á móti fram í umræðunni í dag, fyrir þá sem fylgdust með því, að gerðar voru alvarlegar athugasemdir við orðalag ýmissa þeirra spurninga sem leggja á fram. (Gripið fram í.) Ég votta það hér með að ég fékk sent SMS-skeyti um atkvæðagreiðsluna og þegar ég sá tilkynninguna kom ég hingað niður eftir. En ég reikna með því að á þessum tíma sólarhringsins séu margir hv. þingmenn sofnaðir, jafnmerkilegt og það kann að hljóma.