140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[01:59]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér, af því að þetta mál var nú til umræðu í allan dag: Hvað var það sem gerðist upp úr miðnætti sem varð til þess að skyndilega þurfti að boða til þessarar atkvæðagreiðslu? Fékk hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir allt í einu þá hugdettu að greiða þyrfti sérstaklega atkvæði þá eða hafði hún alið þann draum í brjósti sér í allan dag að geta komið fram með þá ósk á endasprettinum þegar hún vissi að allir eða flestir þingmenn væru farnir heim, væru fjarverandi, til þess að geta spillt málinu? Hvað var það sem gerðist í huga hv. þingmanns þarna upp úr miðnætti?

Ef það var svo mikilvægt að greiða atkvæði um þetta, hvers vegna var þá ekki farið fram á það fyrr? Hefðu það ekki verið fullkomlega heiðarleg vinnubrögð einhvern tíma um miðjan dag að gera samstarfsfólki sínu hér í þinginu grein fyrir því að óskað væri atkvæðagreiðslu? Það er ekkert að því að halda atkvæðagreiðslu, en því biðja menn um það með svona skömmum fyrirvara, kl. 00.37? (Forseti hringir.) Hvað býr þar að baki?