140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[02:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði, það er ekkert að því að ganga til atkvæða í Alþingi. Það er meira að segja þannig, frú forseti, að samkvæmt 71. gr. þingskapa er þingmanni skylt að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi. Það vill svo til að þingmenn stjórnarflokkanna flykktust hingað í hús, að sjálfsögðu, þegar eftir því var kallað að hér yrði gengið til atkvæða. Ef þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hér voru þegar umræðu lauk hefðu nennt eða haft dug í sér til að sitja áfram hefðu verið 35 manns í atkvæðagreiðslu og hún hefði verið lögmæt í samræmi við 1. mgr. þessarar sömu 71. gr. Þá hefðu verið hér 35 þingmenn.