140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta mikilvæga mál skuli nú ganga til nefndar, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eins og vera ber samkvæmt þingsköpum. Nefndin mun vinna hratt og örugglega og tryggja afgreiðslu út úr nefnd þannig að þingheimur geti tekið ákvörðun um það fyrir tilsett tímamörk annað kvöld og tryggt þannig að þjóðin fái beina aðkomu að því að segja hug sinn um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá.

Ég fagna því alveg sérstaklega að atlögu Sjálfstæðisflokksins og sérstaklega formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins í nótt var hrundið. Ég á ekki von á öðru en að áfram verði haldið klækjabrögðum á þeim bæ eins og við höfum nú kynnst. Þessi framganga verður lengi í minnum höfð, hún er fordæmalaus eins og hér hefur verið bent á og það er dapurlegur vitnisburður að þetta skuli vera (Forseti hringir.) einn stærsti þingflokkurinn í þinginu.