140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um það hvort það mál sem hér um ræðir eigi að ganga til síðari umr. eða ekki. Ég vil byrja á að leiðrétta hv. þm. Álfheiði Ingadóttur vegna þess að það kom einmitt fram í þeim upplýsingum sem hv. þm. Magnús Orri Schram reiddi fram að svona meðferð er ekki fordæmalaus. Að minnsta kosti í tveimur tilfellum sem hann nefndi hefur þetta verið gert áður þannig að ég ætla að leiðrétta það. (Gripið fram í: Um lagafrumvarp.) [Kliður í þingsal.] (ÁI: Lagafrumvörp.)

Ég ítreka það sem fram kom hér í umræðum í gær að þetta mál er vanbúið og ófullburða. Það hefur ekki verið hlustað á sérfræðinga í stjórnskipunarrétti og það á eftir að gera ýmsar lagfæringar til að þetta mál gæti orðið að máli sem væri hægt að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tíminn til þess er of knappur. Ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) eina ferðina enn ekki staðið sig við að koma þeim málum sem hún þó leggur áherslu á til þingsins í tæka tíð og þess vegna (Forseti hringir.) greiði ég atkvæði gegn því að þetta mál gangi til síðari umr.