140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:42]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að samþykkja að málið fái þinglega meðferð en ég hef ýmsar athugasemdir við spurningarnar sem eru settar fram í þessari þingsályktunartillögu og skora hér með á hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fá sérfræðinga til að gefa umsagnir um orðalag spurninganna.

Ég óska líka eftir því að spurning nr. 5 verði einfaldlega felld út. Ástæðan er sú að stjórnlagaráðið gerir tillögu sem ég er sátt við, um það að 10% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki 15% og 20% sem eru lakari kostir að mínu mati. Auk þess geri ég tillögu um að í stað spurningar 5, eins og stendur núna, komi ný spurning þar sem þjóðin er spurð álits á því hvort hún vilji gefa frá sér rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um skattaleg málefni eins og Icesave þannig að ekki verði komið í veg fyrir að hér verði þjóðaratkvæðagreiðsla aftur ef Icesave kemur inn í þingið.