140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég hef rakið það í ræðu að við erum að fara í gegnum að minnsta kosti ellefu ef ekki tólf spora feril í því að breyta stjórnarskránni. Við erum í miðjum klíðum, við erum ekki að fara að samþykkja nýja stjórnarskrá á morgun og meira að segja er ekki komið inn í þingið frumvarp til breytinga á stjórnarskrá. Við höfum þess vegna ekki rætt efnislega í þaula við þrjár umræður frumvarp til breytinga á stjórnarskrá. Það er ætlunin að það komi inn í þingið í haust þannig að þetta er allt saman ferill.

Ég hef líka spáð því í ræðustól að við hvert einasta skref sem við mundum taka í þessu gysi upp sú andstaða við að breyta stjórnarskránni sem við höfum orðið vitni að allan lýðveldistímann. Hún er alltaf fyrir hendi og mér finnst hún núna hafa náð nýjum hæðum þegar það er meira að segja megn andstaða — (Gripið fram í.) nýjum hæðum, já, við það að þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu fái þinglega meðferð og fari í nefnd. Ég spái því að andstaðan muni ná (Forseti hringir.) enn hærri hæðum — eða lægðum eftir því hvernig á það er litið í framhaldinu.

Ég ætla bara að láta þennan spádóm í ljós (Forseti hringir.) af þessu tilefni og svo mundi ég vilja óska þess (Forseti hringir.) í ljósi atkvæðagreiðslunnar sem átti að fara fram í nótt að fá upplýsingar (Forseti hringir.) um það frá forseta þingsins hverjir voru boðaðir í þá atkvæðagreiðslu og hvenær. [Kliður í þingsal.]