140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:46]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Vegna þeirrar atkvæðagreiðslu sem hér átti að fara fram í nótt vil ég bara segja að ég mætti hingað upp úr eitt og mætti þá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Framsóknarflokksins, þar sem hann laumaðist út úr húsinu í skjóli nætur til að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu um framgang þessa máls. Svo mikil er nú reisn þingflokks Framsóknarflokksins í þessu máli. Það er með ólíkindum að hann skuli koma hingað upp og lýsa því yfir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé ekki fær um að fjalla um þetta mál.

Ég bendi hv. þingmanni á að í dagblöðum dagsins er byrjað að auglýsa hjólhýsi fyrir sumarið. Þar gæti þingflokkur Framsóknarflokksins kannski hafst við og komið og farið eins og sá farandþingflokkur sem hann virðist nú vera orðinn.