140. löggjafarþing — 78. fundur,  28. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við ræðum um þá atkvæðagreiðslu sem óskað var eftir í nótt og það gefur tilefni til að ræða það hvenær atkvæðagreiðslur eru sem og hvernig starfshættir í þinginu eru. Hv. þm. Magnús Orri Schram vísaði til þess að tvisvar áður hefðu verið greidd atkvæði um það hvort mál færu til nefndar og þá til hvaða nefndar. Þær atkvæðagreiðslur báðar fóru fram um dag, önnur kl. 11.00 og hin kl. 17.22 þannig að þingmenn höfðu tök á því að hafa þetta innan síns venjulega vinnudags. Það vekur kannski spurningar um það hvort við eigum að halda hér almennt næturfundi þegar alltaf getur komið upp, samkvæmt þingsköpum, að óskað sé eftir atkvæðagreiðslu.

Jafnframt vek ég athygli á því að þegar ég hélt ræðu mína í gær var enginn flutningsmanna viðstaddur (ÁI: Það er rangt.) og ég fékk ekki svar við neinum af mínum spurningum. Vissulega var forseti á forsetastóli en ég tel varla að hann hafi getað svarað fyrirspurnum mínum þegar hann sat þar. [Kliður í þingsal.]