140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Í skýrslu þingmannanefndar Alþingis sem samþykkt var samhljóða í september 2010 og í þingsályktun sem jafnframt var samþykkt á þeim tíma kom meðal annars fram að auka þyrfti sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við löggjafarstarf, marka skýr skil á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og efla góða rökræðusiði á þinginu. Hún taldi rétt að alþingismenn settu sér siðareglur. Nefndin lagði til að ríkisstjórninni yrði gert að leggja fram stjórnarfrumvörp með góðum fyrirvara þannig að þingmönnum gæfist gott ráðrúm til að taka þau til faglegrar skoðunar, upplýstrar málefnalegrar umræðu og afgreiðslu.

Enn fremur lagði nefndin sérstaka áherslu á að settar yrðu skýrar reglur um innleiðingu EES-gerða.

Í þingsályktuninni var lagt til að endurskoða löggjöf og eftir atvikum undirbúa löggjöf á tilgreindum 12 sviðum sem ég ætla ekki að lesa hér upp. Það var lagt til að mælt yrði fyrir um rannsóknir og úttektir á vegum Alþingis í þremur tilvikum og að nefnd á vegum Alþingis skyldi hafa eftirlit með þessum úrbótum og að þeim yrði hrint í framkvæmd. Þessari úrbótavinnu átti að ljúka fyrir 1. október 2012.

Ég spyr hv. formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Valgerði Bjarnadóttur, hvernig eftirliti nefndarinnar hafi verið háttað til þessa. Hver er staða mála, hvaða úrbótum hefur verið náð fram og hverjum ekki? Loks vil ég spyrja hvort vænta megi skýrslu eða úttektar nefndarinnar á stöðu mála fyrir 1. október 2012.