140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að fá þessa spurningu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur nóg á sinni könnu. Nefndin mæðist í mörgu ef svo mætti að orði komast.

Við höfum það hlutverk að fylgjast með því að þingsályktun þessari verði framfylgt. Ég hlýt að segja eins og er að því miður hefur okkur ekki enn auðnast að fá á okkar fund fulltrúa úr forsætisráðuneyti til að fara yfir málin með þeim sem eru þar og fylgjast gjörla með þessu öllu saman. Hins vegar verður fulltrúi úr forsætisráðuneyti einmitt til að tala um þetta efni vonandi á fyrsta og annars öðrum fundi eftir páskahlé.

Af því sem þingmaðurinn spurði um vil ég fyrst nefna það sem augljóslega hefur ekki gengið eftir eins og skyldi og það er að stjórnarfrumvörpum sé skilað inn í þingið með góðum fyrirvara. Því miður hefur það ekki gengið eftir eins og við munum sjá á næstu dögum. Ég hef áður gagnrýnt félaga mína í ríkisstjórn fyrir það.

Margt annað hefur gengið eftir. Það eru komnar reglur um EES og það eru komin lög um ný þingsköp. Við eigum hins vegar eftir að taka ákvörðun um hvernig við höldum áfram með skoðun á lífeyrissjóðunum og þannig mætti lengi telja. Nefndin mun örugglega gera grein fyrir þessu og gefa þinginu skýrslu fyrir 1. október og þá verður sú skýrsla vonandi mjög jákvæð um að flest sé komið í gagnið og að það sem ekki sé komið í gagnið verði komið í gang.