140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Allir flokkar á þingi eru sammála um nauðsyn þess að draga úr vægi verðtryggingar. Afstaða stjórnarflokkanna er að afnema beri verðtrygginguna án almennrar leiðréttingar þrátt fyrir að þeir sem tóku á sínum tíma gengistryggð lán standi mun betur að vígi eftir dóma Hæstaréttar en þeir sem tóku verðtryggð lán. Útreikningar sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar lét gera sýna að eftir gengisdóma Hæstaréttar stendur 10 millj. kr. lán sem tekið var 2002 núna í um 8 milljónum en sambærilegt verðtryggt lán væri komið upp í 15 milljónir. Stjórnarmeirihlutinn ætlar ekki að leiðrétta þennan mun sem er á gengistryggðum lánum og verðtryggðum lánum sem tekin voru á sama tíma heldur leggja blessun sína yfir aukna misskiptingu, misskiptingu sem ég ætla ekki að sætta mig við meðan ég sit á þingi.

Undanfarið hafa bankarnir boðið upp á fasteignalán með vöxtum sem eru nú neikvæðir. Það þýðir með öðrum orðum að verðbólgan er að éta upp lánin. Þetta eru lán með óverðtryggðum vöxtum og fólk með háar tekjur og litla skuldsetningu hefur getað nýtt sér tilboð bankanna um neikvæða raunvexti á fasteignalánum. Aðrir ráða ekki við greiðslubyrði óverðtryggðra lána.

Virðulegi forseti. Það þarf að leiðrétta verðtryggð lán til að gera sem flestum kleift að ráða við uppgreiðslukostnaðinn og aukna greiðslubyrði þegar lánum þeirra er breytt úr verðtryggðum (Forseti hringir.) í óverðtryggð.