140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það olli mér nokkrum vonbrigðum að á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á mánudaginn tók formaður nefndarinnar ákvörðun um að hætta tilraunum til þess að ná samstöðu meðal nefndarmanna um vinnu sem verið hefur í gangi um að draga úr verðtryggingu. Það er hárrétt sem hv. formaður sagði hér áðan að það strandaði einkum á tvennu; annars vegar því að einhverjir nefndarmenn vildu tengja þá aðgerð að draga úr verðtryggingu beint við skuldaniðurfellingu til heimila, og hins vegar vöruðu sumir þingmenn við því, meðal annars sá sem hér stendur, að við færum út í að leggja blátt bann við verðtryggingu að óathuguðu máli.

Það er ljóst að blátt bann við verðtryggingu gæti hugsanlega leitt til þess að upp kæmu mikil vandamál á íbúðalánamarkaði, þ.e. hvernig á að fjármagna yfir þúsund milljarða af óverðtryggðum lánum. Mundi það leiða til þess að lánsframboð drægist mjög snöggt saman? Mundi það leiða til þess að ungar fjölskyldur hefðu minni aðgang að lánsfé til húsnæðiskaupa en ella, o.s.frv.?

Þetta eru allt saman spurningar sem þarf að svara. Ég gerði bókun í nefndinni þar sem ég benti á aðila sem rétt væri að fá á fund nefndarinnar til að fjalla um þetta. Í framhaldinu hvatti ég til þess að við mundum reyna áfram að ná þverpólitískri sátt um að takmarka verðtryggingu lána á Íslandi.