140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er margt sem vert er að ræða hér undir þessum lið, en ég ætla mér að byrja á því að vekja athygli þingheims á skýrslu sem dreift var hér í dag um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun. Sú skýrsla var unnin af menntamálaráðuneytinu vegna þingsályktunartillögu frá menntamálanefnd. Hér eru loksins komnar fram upplýsingar um þann stóra hóp barna og þá þjónustu eða öllu heldur þjónustuleysi sem hann býr við. Ég vil hvetja þingheim til að kynna sér skýrsluna og fylgja henni fast eftir. Við höfum þegar óskað eftir því við menntamálaráðherra að skýrslan verði tekin til umræðu í þinginu og ég vonast til þess að þetta skili þeim árangri að við hér öll getum gert eitthvert gagn fyrir þau börn í landinu sem þurfa sannarlega á aðstoð að halda.

Þá ætla ég að víkja máli mínu að hinni svokölluðu þingmannanefnd og þeirri skýrslu sem Alþingi fjallaði um fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan og samþykkti í kjölfarið þingsályktunartillögu sem Alþingi ætlaði sér að fylgja eftir. Hv. þm. Atli Gíslason, fyrrverandi formaður þingmannanefndarinnar, kom hér upp áðan og óskaði eftir svörum frá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um það í hvaða farvegi eftirfylgni skýrslunnar er.

Það kom fram í blöðum fyrir nokkrum dögum og eins hefur það verið rætt hér, að nefndinni var falið það verkefni að fylgja málinu eftir fyrir um það bil þremur vikum eða svo eða einu og hálfu ári eftir að þingsályktunartillagan var samþykkt. Ég tel því að við öll hér höfum kannski ekki veitt þessu máli nægjanlega athygli og þurfum að fylgja því fast eftir að við ráðum sjálf ferðinni í þessari endurskoðun. Það er ekki nóg að vísa til þess að forsætisráðuneytið sé að vinna einhverja vinnu. Aðalniðurstaða þingmannanefndarinnar og okkar allra þar með var sú að Alþingi ætlaði að auka sjálfstæði sitt og auka sjálfstæði í vinnubrögðum. Ég tel það ekki vera í samræmi við þá áherslu ef forsætisráðuneytið (Forseti hringir.) á að stýra vinnunni við að útfæra þingsályktunartillöguna.