140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt um nauðsyn þess að ljúka og vinna áfram úr tillögum og samþykktum Alþingis sem komu í kjölfar starfs þingmannanefndarinnar.

Ég vil líka vekja athygli á því að í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndarinnar þar sem fjallað er um siðferði almennt er líka að finna ýmislegt sem lýtur ekki beint að þinginu og er þess vegna ekki inni í þeirri samþykkt sem hér var vísað til. Þar eru lagðar fram tillögur og ábendingar meðal annars um skort á siðareglum í stjórnkerfi okkar. Ég vil nota tækifærið til að vekja athygli á því að brugðist hefur verið við þessu með ýmsum hætti, meðal annars hafa verið sett ný lög um Stjórnarráð Íslands þar sem er að finna ákvæði um að settar skuli siðareglur fyrir stjórnsýsluna með tilteknum hætti, bæði fyrir ráðherra, aðstoðarmenn þeirra, embættismenn og aðra starfsmenn Stjórnarráðsins.

Þá hafa verið sett í lög um sveitarstjórnir, nr. 138/2011, ákvæði um að sveitarfélögin í landinu skuli setja sér siðareglur. Í nýjum þingskapalögum er enn fremur ákvæði um að setja skuli siðareglur fyrir alþingismenn.

Þá hafa einnig verið settar reglur um hagsmunaskráningu þingmanna og lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þeirra og upplýsingaskylda þar um er hert.

Frú forseti. Það bólar hins vegar ekkert á setningu siðareglna fyrir forsetaembættið (Gripið fram í: Hver á að setja þær?) nær tveimur árum eftir að skýrsla rannsóknarnefndarinnar lá fyrir. Hver á að setja þær? spyr hv. þm. Bjarni Benediktsson. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar frá sjö þingmönnum sem ég vil hvetja þingmenn til þess að kynna sér og styðja, þar sem lagt er til að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að undirbúa í samvinnu við embætti forseta Íslands setningu siðareglna fyrir embættið. Frú forseti. Það veitir ekki af.