140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[15:38]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Á dagskrá þessa þingfundar eru frumvörp hæstv. sjávarútvegsráðherra um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Þetta eru meðal mikilvægustu mála að mati ríkisstjórnarinnar sem þarf að ræða í þinginu. Þó liggja fyrir fjöldamörg mál eins og fram hefur komið í þessari umræðu um störf þingsins.

Ég las áðan á vef Stjórnarráðsins að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og þar með hæstv. sjávarútvegsráðherra er staddur í Kanada að ræða efnahagsmál. Ég spyr hæstv. forseta: Hver er starfandi sjávarútvegsráðherra og er virkilega ætlun ríkisstjórnarinnar að mæla fyrir þessu máli í dag? Á annar ráðherra, með fullri virðingu fyrir þeim ráðherra, að mæla fyrir þessu grundvallarmáli ríkisstjórnarinnar? Er ekki augljóst að þessu máli þurfi að fresta? Mér finnst það hreint ekki koma til greina að nokkur annar en hæstv. sjávarútvegsráðherra mæli fyrir breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.