140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:51]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er fráleitt að halda því fram að það að gera athugasemd við að hæstv. sjávarútvegsráðherra mæli fyrir sínu grundvallarmáli séu menn þar með að kasta rýrð á hæstv. starfandi sjávarútvegsráðherra, auðvitað er það ekki þannig, auðvitað er það útúrsnúningur af hæstv. utanríkisráðherra að tala með þeim hætti. Hann veit betur, hæstv. ráðherra, þótt hann sé nú óvenjulega hvumpinn í dag.

Það er nú þannig (Gripið fram í.) að hér er um að ræða eitt — ásamt fleirum, hæstv. ráðherra — að þetta mál hefur verið eitt af megináherslumálum ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur þá að vera svo að þeir þingmenn sem ætla að taka þátt í þeim umræðum hér í dag vilji tala við þann hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á málinu og undirbjó það og stendur fyrir frumvarpinu. Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með hæstv. forseta að sjá ekki í hvaða stöðu þingið er að setja þingmenn sem eiga að ræða málið í dag ef menn ætla að halda sig við það að halda málinu á dagskrá og láta starfandi hæstv. sjávarútvegsráðherra mæla fyrir því.