140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Eina svar mitt við þessum umræðum og ummælum stjórnarliða er: Margur heldur mig sig.

Hér kemur varaformaður Sjálfstæðisflokksins og hefur spurningu fram að færa, vegna þess að við lesum það á vefnum að hæstv. sjávarútvegsráðherra sem við héldum að við værum að fara að eiga orðastað við um eitt grundvallarmál, ekki bara þessarar ríkisstjórnar, heldur um grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar, sem til stendur að umbylta — þá erum við vænd um klækjastjórnmál. Ég bara spyr: Hvenær þorir þessi ríkisstjórn að taka umræðuna um það að hún er gjörsamlega — gjörsamlega — laus við alla verkstjórn. Hún er gjörsamlega laus við allt skipulag.

Virðulegur forseti. Mér var legið það á hálsi áðan að ég stjórnaði þinginu. Má ég í fullri vinsemd koma með þá tillögu að forsætisnefnd, sem ég á reyndar ekki sæti í, verði kölluð saman til að athuga hvort eitthvað af þessum fjölmörgu málum sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir lagði til að við þyrftum að ræða og koma til nefndar (Forseti hringir.) verði tekin (Forseti hringir.) fram fyrir á (Forseti hringir.) dagskrána, þessum málum vikið til hliðar þar til hæstv. sjávarútvegsráðherra, með allri (Forseti hringir.) virðingu fyrir hæstv. menntamálaráðherra, (Forseti hringir.) verður kominn (Forseti hringir.) heim?