140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

lengd þingfundar.

[16:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Öndvert við formann þingflokks sjálfstæðismanna er ég þeirrar skoðunar að langir og góðir næturfundir bæti heldur lagasetningu á Alþingi Íslendinga. [Hlátur í þingsal.] Hins vegar tek ég undir þá ósk hennar, frú forseti, að við eigum hér fyrir höndum notalegan næturfund eins og hv. þingmaður orðaði það. Ég fagna nefnilega því sem hæstv. forseti sagði áðan að það þyrfti atkvæðagreiðslu til þess að fá fram lengri fund til að ljúka dagskrármálinu. Ég vil að það komi algerlega skýrt fram að ég er hér að greiða atkvæði með því að við höldum áfram inn í kvöldið og inn í nóttina til að ljúka málinu þannig að það verði ekkert fimbulfamb og uppnám hér eins og í nótt þar sem þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fannst mjög slæmt að halda áfram.