140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að menn ræði talsvert um byggðaráðstafanir þessa frumvarps því það liggur fyrir að þær eru með öðrum hætti en hingað til hefur tíðkast og með öðrum hætti en til að mynda í síðasta frumvarpi sem lagt var fram. Gert er ráð fyrir að byggðakvótinn verði minnkaður, en á móti kemur að honum verður vísað í leigupottinn sem ég fór yfir áðan og að ráðherra hafi heimild til að ráðstafa allt að helmingi byggðakvótans til þeirra byggða sem standa veikt eða hafa orðið fyrir áföllum í sjávarútvegi, en fyrirkomulagið er vissulega annað. Þetta er ekki gert með beinhörðum byggðakvóta, heldur með því að beita hugsanlegri svæðisbundinni leigu sem ráðherra hefur svo heimild til að ráðstafa. Það er vissulega annað fyrirkomulag en verið hefur, en við teljum hins vegar að það muni ekki gagnast síður en hið hefðbundna byggðakvótafyrirkomulag sem við höfum nú ekki alltaf verið ánægð með hvernig hefur nýst sem byggðaaðgerð. Þarna er vissulega verið að fara nýjar leiðir og full ástæða til að ræða þær ítarlega.

Hvað síðari spurningu hv. þingmanns varðar sem tengist veiðigjaldinu held (Forseti hringir.) ég að sé rétt að við ræðum það þegar við ræðum það frumvarp.