140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[16:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór yfir áðan er ljóst að þessi umræða um þjóðina annars vegar og ríkið hins vegar er ekki einföld. Hér er lögð til ákveðin leið þar sem við horfum á fiskiauðlindina í sjónum í kringum Ísland sem eign þjóðarinnar en lítum um leið svo á að ríkið ráðstafi fyrir hönd þjóðarinnar veiðiheimildunum með tiltekin markmið að leiðarljósi. Þetta er grundvallaratriði í frumvarpinu, þ.e. að við staðfestum með þessari 1. gr. eign þjóðarinnar, ekki á hverjum og einum fiski eins og ég sagði áðan heldur á auðlindinni sem slíkri. Ríkið sem hinn eðlilegi fulltrúi þjóðarinnar fer samt með eignarhaldið, er nokkurs konar ráðsmaður auðlindarinnar og annast um leið útgáfu nýtingarleyfa til þeirra sem hyggjast nýta hana. Þetta er sá skilningur sem ég legg í þetta og ég vona að hv. þingmaður átti sig betur á þessu þegar ég fer aftur yfir þann skilning sem ég hef á hlutverki ríkisins í þessu sambandi þegar við ræðum um eign þjóðarinnar.