140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það er svo sem ekki mikið nýtt í henni, við höfum heyrt skoðanir þingmannsins og flokks hans töluvert lengi.

Það sem vakti athygli mína var að ræðan snerist að mestu leyti um veiðigjaldið sem á að ræða síðar í dagskránni. Engu að síður gerði forseti ekki athugasemd við það þannig að við ræðum það að einhverju leyti. Veiðigjaldið er skattur sem leggst mismikið á landshluta, leggst mest á landsbyggðina og er því landsbyggðarskattur. Annað sem vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns, eða ég gat ekki skilið hana öðruvísi, var að hann mælti fyrir samþjöppun í greininni, að þar þyrfti í raun að verða enn frekari hagræðing þannig að færri sæktu í auðlindina en fleiri. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að þingmaðurinn hafi talið að besta niðurstaðan í þessu yrði að færri mundu sækja.