140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Eitt af markmiðum þessa frumvarps er að styrkja byggð í landinu. Ég saknaði þess í máli hv. þingmanns, hann fjallaði mjög lítið um byggðamál og áhrif þessa frumvarps á byggðirnar. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á það áðan að veiðigjaldið væri hreinn og klár landsbyggðarskattur þar sem verið væri að flytja fjármagn frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann og fá hann til að fara betur ofan í það hvernig nákvæmlega hann telji að þetta muni styrkja byggð í landinu, því að greinargerð frumvarpsins og úttekt sem þarna er bendir til þess að það sé alls ekki víst að það frumvarp sem fyrir liggur muni með nokkrum hætti styrkja byggð í landinu. Telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að áður en lagt er af stað með frumvarp eins og þetta liggi fyrir stærri úttekt á því hver áhrifin kunni að verða á byggðina í landinu þannig að menn séu ekki að slá sig til riddara á fölskum forsendum?