140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Veiðigjaldið er klárlega byggðaskattur á meðan verið er að flytja fjármagn frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, ekki nema það sé með einhverjum hætti eyrnamerkt að það renni aftur til byggðanna.

Í greinargerð eða úttekt með frumvarpinu sem fyrir liggur og í umfjöllun um það er því jafnvel slegið upp að þetta kunni að hafa neikvæð áhrif á byggðirnar og þetta sé ekki endilega til þess fallið að styrkja byggð í landinu.

Ég vil enn og aftur spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki eðlilegt að fram hefði farið einhver úttekt á frumvarpinu varðandi áhrifin á byggðirnar í landinu. Það gengur ekki að hv. þingmenn segi okkur að þetta styrki byggð í landinu þegar frumvarpið, með þeim gríðarlega landsbyggðarskatti sem þar er, gerir það á engan hátt. Er ekki eðlilegt að unnin sé einhver stærri úttekt á því hver byggðaáhrifin kunni að verða af þessu frumvarpi?