140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta mál hefur svo sem farið yfir í hitt málið líka enda kannski ekki við öðru að búast, þau eru vitanlega nátengd og mikið skyld. Ég vil byrja ræðu mína á því að taka það skýrt fram, vegna þess að ýmsir stjórnarliðar, sérstaklega ráðherrar, hafa gjarnan komið upp og túlkað stefnu annarra flokka í hinum og þessum málum, að það sem er líkt með því frumvarpi sem hér er lagt fram og stefnu Framsóknarflokksins frá síðasta flokksþingi er heildarmyndin, lítið annað á skylt við þá stefnu. Þegar hæstv. utanríkisráðherra, sem gjarnan túlkar stefnu framsóknarmanna, kemur hér er því ágætt að benda honum á þetta. Við töluðum reyndar um samninga en hér er talað um að veita leyfi til 20 ára með framlengingu, halda okkur við aflamarks- og aflahlutdeildarkerfi, þá er það stóra myndin og það er nokkuð gott samræmi þarna á milli.

Ég vil fyrst nefna það, sem venjan er með mál sem koma frá ríkisstjórninni, að samráð um þetta mál hefur ekki verið neitt, ekki við aðra stjórnmálaflokka hér á þingi — það er nú sjaldnast þannig í málum sem ríkisstjórnin leggur fram að leitað sé samráðs við stjórnarandstöðuna og ekki heldur við hagsmunaaðila, hverju nafni sem þeir kunna að nefnast. Þeir eru margir, hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, þeir eru ekki bara einn, þeir eru margir. Upplýsingafundir hafa verið haldnir, það vitum við.

Vinnubrögðin eru því mjög gagnrýnisverð. Ef ætlunin er að klára svo stórt mál sem hér um ræðir — eða stór mál, þau eru tvö — fyrir sumarleyfi er tíminn býsna naumur, það verður að segjast eins og er. Í raun er vandséð hvernig það á að takast með góðri vinnu. Það verður þó atvinnuveganefndar að reyna að leiða slíka vinnu þannig að vel takist til.

Við einstakar greinar frumvarpsins er ýmislegt að athuga, en margt er bara nokkuð eðlilegt. Til dæmis er 4. gr. heldur til bóta en þar er farið í orðskýringar. Fólk hefur stundum verið að velkjast í vafa um hvað er hvað þegar verið er að tala um sjávarútveginn, svo að ég held að sú grein sé til bóta. Það er hins vegar ýmislegt annað sem maður staldrar við, svo sem reglur um úthlutun á heimildum.

Ég hef hér í andsvörum nefnt það sem mér þykir mikið óréttlæti þegar rætt er um sjávarútveginn. Á síðustu árum hafa fjölmargir einstaklingar, dugmiklir einstaklingar, keypt sig inn í sjávarútveginn og skuldsett sig. Lítil, meðalstór og stór fyrirtæki hafa einnig skuldsett sig með því að kaupa aflaheimildir og jafnvel aðrar útgerðir þar sem sífellt er leitað eftir meiri hagkvæmni, sem er jú eitt af meginmarkmiðum sjávarútvegsfrumvarpsins sem hér er lagt fram og laganna sem nú eru í gildi. Ekki er gerð nein tilraun í frumvarpinu til að mæta þeim skerðingum sem margir þessara aðila hafa orðið fyrir síðastliðin ár og sér í lagi árið 2007, ekki nein, og rökin sem heyrst hafa hér eru að þetta sé sveiflubundin grein og þar af leiðandi verði menn bara að búa við það. En þar sem greinin er sveiflukennd rofar gjarnan til í henni. Það er vonandi það sem við munum sjá í framtíðinni, það er margt sem bendir til þess, og þá er það mín skoðun að það sé eðlileg krafa að þegar sveiflan kemur til baka sé byrjað að laga til og leiðrétta hjá þeim sem höfðu lent í skerðingu og jafnvel miklu tjóni stuttu áður. Hér er ekki verið að gera það, hér er á engan hátt horft til þess, heldur er aukið á álögur á þessa aðila.

Ég vil líka taka fram að þó að það sé rétt, sem hér hefur komið fram, að verið sé að auka hlutdeild annarra tegunda sem hafa verið teknar í kvótapotta, er ekki verið að gera það með neinu jafnræði, það er enn þá töluverður munur þar á.

Það er líka nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að það sem er lagt til grundvallar í útreikningi af hagnaði, ef ég skil þetta rétt, það á svo sem eftir að koma í ljós, er ekki miðað við hverja útgerð fyrir sig. Útgerðirnar eru ekki skoðaðar hver fyrir sig, t.d. ein á Snæfellsnesi, önnur á Norðurlandi eða fyrir austan, heldur er tekið einhvers konar heildartal, ef ég hef skilið þetta rétt, sem þýðir að sumir aðilar greiða hlutfallslega meira en aðrir. Þeir sem eru til dæmis bara með veiðar en enga vinnslu borga líka fyrir vinnslu. Hins vegar eru þeir sem eru eingöngu í vinnslu ekki að greiða neitt. Þannig er þetta ef þetta er rétt skilið hjá mér.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvaða réttlæti er í þessu? Aðstaða þeirra sem eru með útgerð og vinnslu til að taka kostnaðinn er vitanlega allt önnur en þeirra sem eru bara í útgerð. Það er ekkert réttlæti í því að þeir sem eru eingöngu í vinnslu þurfi ekki að leggja neitt í þetta, það er að minnsta kosti mín skoðun.

Ég veit um fyrirtæki sem telst líklega meðalstórt eða jafnvel í minni kantinum sem lét reikna þetta út fyrir sig — bara dæmi fyrir það félag — fyrir árin 2008, 2009 og 2010. Þar væri þetta sérstaka veiðigjald um 80–90 kr. á hvert kíló. Það væru 30% af öllum hagnaði sem færu í þetta veiðigjald í þessu fyrirtæki og þetta er fyrirtæki með enga vinnslu, þetta er fyrirtæki sem landar öllu á markað, selur allt á markað og fær væntanlega besta verð á hverjum tíma. Þetta fyrirtæki skuldsetti sig líka fyrir nokkrum árum, keypti aflaheimildir. Nú eru þau ágætu hjón sem eiga þetta fyrirtæki að velta vöngum yfir því hver framtíð þeirra sé í þessari grein. Þetta er það sem þetta frumvarp boðar og býður upp á.

Það er annað sem vekur athygli mína og ég vil velta hér upp: Ef ég skil 1. gr. varðandi ævarandi eign íslensku þjóðarinnar — við þekkjum söguna þar sem risið hafa deilur um það hvort einhvers konar eign eða eignarréttur hafi myndast hjá þeim sem ráða yfir kvóta. Ég velti því upp, og náði nú ekki að spyrjast fyrir um það hér áðan, hvort hér sé ekki verið að taka á því, þ.e. að reyna að leita eftir einhvers konar samningum, og hvort þá 1. gr., eins og hún er orðuð, kalli á málaferli frá þeim sem telja að þarna hafi orðið til eign, hvort við munum horfa fram á langar raðir fyrir dómstólum til að láta reyna á slíkt. Hugmyndin með því að gera undirritaðan samning var að sjálfsögðu sú að koma í veg fyrir þess háttar. En í frumvarpinu er talað um að menn geti mætt í Fiskistofu eða eitthvað slíkt og undirritað — eða „eitthvað sambærilegt“, eitthvað svoleiðis, mjög óljóst að mínu viti.

Frú forseti, það er margt að athuga við þetta.

Í 8 gr. er farið yfir úthlutanir og þykir mér býsna bratt farið í úthlutanir í flokk 2 sem talað er um, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi hér áðan, að ekki er gerð nein tilraun til að bæta þær skerðingar sem orðið hafa undanfarin ár. Það er barnaskapur, ég leyfi mér að segja það, frú forseti, að halda að skerðing á aflaheimildum sem orðið hefur undanfarin ár og aukinn kostnaður þeirra sem eru í útgerð, hvort sem það eru einstaklingar eða stærri fyrirtæki, hafi ekki áhrif á rekstur fyrirtækisins eða þau byggðarlög þar sem fyrirtækin eru. Vitanlega hefur þetta mikil áhrif á þessa aðila.

Allir sem eru í rekstri leitast við að mæta auknum kostnaði með einhverjum aðgerðum og aukinn kostnaður féll á þessi fyrirtæki árið 2007. Hvernig mæta menn slíku? Annaðhvort þurfa þeir að framleiða meira og fá þá að veiða meira eða þurfa að draga saman seglin, sem bitnar þá á þeim sem vinna hjá fyrirtækinu eða þeim sem þjónusta þessa aðila því að þeir þurfa einhvers staðar að skera við nögl. Ég held að þarna sé mikill galli á gjöf Njarðar, ef ég má orða það þannig.

Það er svo sem ýmislegt sem hægt er að fara í varðandi þetta mál og margt sem maður veltir fyrir sér. Ég ætla að nefna hér grein sem ég talaði um áðan, ákvæði til bráðabirgða varðandi aflahlutdeild fiskiskips og það sem mun skerðast frá upphafi veiðiársins 2012/2013. Þarna eru þeir enn að leggja meira til sem það hafa gert undanfarin ár, í þessar svokölluðu bætur. Ekki er gerð tilraun til að jafna þetta, þetta er vitanlega skárra — 5,3% af öllum öðrum tegundum er vitanlega skárra — en ég held að ganga hefði þurft lengra, í það minnsta að jafna þetta og kannski minnka það sem hinum megin er til að ná einhverjum samhljómi í þetta allt.

Mörg okkar sem erum úr sjávarútvegsbæjum eða -þorpum höfum áhyggjur af því frumvarpi sem hér liggur fyrir og þær tengjast því að hagnaður fyrirtækja hefur runnið til samfélaganna í ýmsu formi, í samfélagsverkefni, í sjúkrahúsin, til atvinnuuppbyggingar — jú, það er kannski óeðlilegt að sjávarútvegurinn sé að taka þátt í annarri atvinnuuppbyggingu, ég kann ekki að skýra það hvort mönnum finnst það eitthvað óeðlilegt. Ég velti því fyrir mér hvort það teljist eðlilegt hér á höfuðborgarsvæðinu að fyrirtæki í verslun og þjónustu séu í óskyldum greinum, það má líkja því saman.

Og úr því að ég fór að nefna það er ágætt að halda því til haga, frú forseti, þegar talað er um afskriftir eftir atvinnugreinum, og þær tölur hafa verið birtar, að fyrir utan landbúnaðinn er sjávarútvegurinn sú atvinnugrein þar sem hvað minnst hefur verið afskrifað. Ef ég man rétt voru það um 12,5 milljarðar hjá sjávarútvegsfyrirtækjum en 137 milljarðar hjá fyrirtækjum í fjárfestingum og þjónustu. Þau fyrirtæki sem ekki hafa þurft að fá afskriftir eru flest, 80–90% þeirra, stödd utan höfuðborgarsvæðisins.

Frú forseti. Það er mikill blekkingarleikur að halda að þetta frumvarp hafi ekki einhver áhrif á byggðirnar í landinu og þessi fyrirtæki sem eru misjöfn að stærð. Ég hygg að á næstu dögum munum við sjá útreikninga þar sem búið er að reikna þetta niður á einstök fyrirtæki, þar sem búið er að taka alvörudæmi til að sýna fram á áhrifin. Ég hefði kosið að með frumvarpinu fylgdu útreikningar þar sem búið væri að fara í einstök fyrirtæki. Ég veit að aðilar í greininni eru fúsir til að opna bækur sínar til að hægt sé að reikna þessi dæmi til enda. Það er vitanlega það sem hefði þurft að gera til að meta áhrifin en ekki að fara hér í (Forseti hringir.) einhvers konar — ja, ég veit ekki hvað á að kalla það, einhvers konar samninga milli stjórnarflokkanna um hvað eigi að vera inni og hvað ekki.