140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Sjávarútvegurinn skilar gríðarlegum arði til þjóðarinnar í heild. Þetta er okkar stærsti útflutningsatvinnuvegur. Það er talið, ef ég man rétt, að í svokölluðum sjávarklasa starfi í kringum 30 þús. manns. Að minnsta kosti eru tölurnar gríðarlegar.

Þegar herðir að sjávarútveginum, alveg sama hvar það er gert, hefur það áhrif á heildarmyndina, það hefur áhrif á alla þessa aðila. Það er verið að hvetja til þess að sjávarútvegurinn fjárfesti meira í tækni, nýjum skipum og slíku og því er svolítið sérstakt að hvetja til þess að menn taki áhættu, fjárfesti og skuldsetji sig — og taka hagnaðinn frá þeim á sama tíma. Mér finnst það mjög sérstakt, ekki síst þegar mér sýnist það gert með þessum hætti sem hér virðist eiga að gera, að taka af þessum aðilum einhvern umframhagnað sem er verið að reyna að skilgreina hér í þingstól. Mér finnst það mjög sérstakt og ég held að þarna sé gengið allt of langt í gjaldheimtu á sjávarútveginn og það er í engu samræmi við þær ályktanir sem Framsóknarflokkurinn hefur nokkurn tíma sent frá sér um gjaldtöku í sjávarútvegi.

Ég hef því áhyggjur af því að sú ól sem á að fara að herða að sjávarútveginum muni hafa veruleg áhrif út í greinar sem hanga utan á sjávarútveginum, nýsköpun, framleiðslu á hinu og þessu. Verkefni sem byggjast á þekkingu og reynslu munu áfram flytjast úr landi. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að ég held að þó að einhverjir aðilar (Forseti hringir.) í sjávarútvegi þoli eflaust aðeins auknar álögur er það alls ekki þannig að greinin þoli það í heild.