140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:52]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Er það þá réttur skilningur hjá mér að hv. þingmaður telji að með þessum breytingum sé dregið úr möguleikum sjávarútvegsins til frekari fjárfestinga þvert á það sem hér hefur verið haldið fram, að hér sé verið að eyða óvissu? Er þvert á móti verið að auka enn á óvissuna og draga úr getu útvegsfyrirtækja og aðila í sjávarútvegi til að fjárfesta til framtíðar?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. þingmann sérstaklega um nýliðun. Þeir aðilar sem voru í greininni í upphafi, þegar sett var á það kvótakerfi sem hér er undir, eru löngu farnir út úr greininni. Þeir sem nú eru í greininni hafa meira og minna keypt sig inn í hana og á síðustu árum hafa menn verið að kaupa sig inn í greinina. Mér sýnist hætta á því að skuldsett sjávarútvegsfyrirtæki muni, einmitt af því að menn hafa verið að kaupa fyrirtæki og fjárfesta í búnaði, með þessum breytingum fara mjög halloka þegar kemur að þessum vilja ríkisstjórnarinnar til að skipta um nýliða í greininni, eins og ég vil nánast orða það.

Mig langar til að heyra viðhorf virðulegs þingmanns til þessa og jafnframt hvort hann átti sig á því hvaða áhrif þessar breytingar muni hafa á meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi. Þá er ég ekki að tala um allra stærstu fyrirtækin heldur meðalstór fyrirtæki um allt land.