140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[20:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið svolítið magnað að hlusta á þingmenn stjórnarflokkanna halda því meðal annars fram að sjálfstæðismenn vilji óbreytt fiskveiðistjórnarkerfi. Þetta er áróður sem virðist snúast um það að dropinn holi steininn. Við höfum tekið þátt í þeirri vinnu sem fór fram við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og erum tilbúnir til þess áfram.

Það er fróðlegt að rifja upp hörmungarsögu ríkisstjórnarinnar í veikburða tilraunum sínum til að standa við stóru orðin, skammaryrðin sem hafa engum verið til sóma, vinsælda- og blekkingarpólitík sem stunduð hefur verið í fiskveiðistjórnarmálum, loforðaflaumi sem aldrei var hægt að efna. Niðurstaða úttektar sérfræðinga Háskólans á Akureyri sem fóru yfir stefnu flokkanna um innleysingar á fiskveiðiheimildum var sú að um 48% fyrirtækja í sjávarútvegi hefðu farið á hausinn ef stefna Samfylkingar fyrir kosningar hefði gengið eftir.

Við stjórnarmyndun 2009 sagði hæstv. forsætisráðherra að menn ættu eftir að komast að raun um að farin yrði fyrningarleið í kvóta í sjávarútvegi. Ég held að enginn sé að bakka í því máli. Eftir að frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra var lagt fram í fyrra sagði þingmaður Samfylkingarinnar í atvinnuveganefnd: Það skyldi þó ekki vera að fyrningarleiðin væri farsælli leið.

Frá myndun núverandi ríkisstjórnar þegar íslenskum sjávarútvegi var hótað að aflaheimildir útgerðarinnar yrðu gerðar upptækar hefur hvert ruglið rekið annað. Forsætisráðherra hótaði okkur sumarþingi í fyrra til að keyra galið mál í gegn og komst ekki upp með það og nú heyrum við aftur þessar kunnuglegu hótanir um sumarþing. Þetta segir í raun allt sem segja þarf um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu viðamikla máli.

Nú er komið fram nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnarmálið og lofsöngurinn hefst að nýju. Þrjú ár eru frá stjórnarmyndun og við höfum heldur lengri tíma nú en þegar fyrra frumvarpið var lagt fram á síðasta vori þegar komið var fram undir sumar. Það er út af fyrir sig ágætt en mikil vinna er eftir og óvíst hvernig fer með afgreiðslu á þessu viðamikla máli.

Í kynningu sjávarútvegsráðherra þegar hann kynnti málið núna kom fram að nú væri kominn grundvöllur að mikilli og góðri sátt um fiskveiðistjórnina. Þetta heyrðum við líka í fyrra þegar sjávarútvegsfrumvarpið var lagt fram, þá blessað af tíu þingmönnum stjórnarflokkanna, tíu úrvalsdeildarmönnum þeirra í þessum málaflokki, og dómurinn var eins og hann var. Afdrif þess voru að það fékk smánarlega útreið hjá öllum umsagnaraðilum. Ég er efins um að það hafi áður gerst á þingi að frumvarp hafi fengið jafnléleg viðbrögð og þá komu fram. Það var mikil og góð samstaða allra hagsmunaaðila hringinn í kringum borðið, samstaða sem áður hafði sést í sáttanefnd um þær tillögur sem þar voru niðurstaðan. Ábyrgðarmenn frumvarpsins sem áður lofuðu það lögðu á harðaflótta í málflutningi sínum og toppurinn var ummæli hæstv. utanríkisráðherra þegar hann talaði um bílslys. Þannig var túlkun hans eftir að hafa melt þetta mál í nokkra mánuði.

Í kynningu sem fór fram á frumvarpinu núna við fjölmiðla var ekki einu orði vikið að því að það yrði til að efla sjávarútveg, bæta rekstrarafkomu, stuðla að hagræðingu eða hagkvæmni. Maður veltir því fyrir sér hvort vísvitandi sé verið að hverfa frá grunngildunum um þjóðhagslega hagkvæman sjávarútveg. Það er mikil breyting ef svo er vegna þess að okkur hefur tekist með fiskveiðistjórnarkerfi okkar að koma á ákaflega hagkvæmum sjávarútvegi svo vart á sér dæmi annars staðar.

Þá er ósamboðið embætti forsætisráðherra hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur með uppnefnum og dónaskap vegið að fólki í sjávarútvegi, fólki sem ekkert hefur gert annað en að fara eftir þeim lögum sem hún sjálf hefur átt þátt í að setja. Hún sagði á flokksráðsþingi Samfylkingarinnar í febrúar 2012: Nú er að duga eða drepast, og í ræðunni voru dregin fram kunnugleg slagorð. Mig langar að taka nokkur dæmi um þau: Íhaldsöfl, forréttindastéttir, valdaklíka íhaldsafla og sægreifa, hagsmunagæsluöfl, gíslataka, grímulaus valdaklíka, óskammfeilnar þvingunaraðgerðir. Í niðurlagi ræðu sinnar bætti hún enn um betur og sagði:

„Við megum ekki unna okkur hvíldar fyrr en þessi orrusta um auðlindir Íslands — orrustan gegn sérhagsmunum og með almannahagsmunum — vinnst með fullnaðarsigri þjóðarinnar.“

Er líklegt að forsætisráðherra sem er svo blindur af hatri og einhverri óskiljanlegri reiði í garð sjávarútvegsins muni ná einhverjum árangri í þessu mikilvæga máli? Nú hefur málið verið á forræði forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra frá því að það var tekið úr höndum fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, í nóvember. Í desember sagði Steingrímur J. Sigfússon að þetta tæki þrjár til fjórar vikur. Nú eru komnir þrír til fjórir mánuðir. Það er margt við frumvarpið að athuga og augljóst er að áhrif þess hafa ekki verið skoðuð nægilega. Enn og aftur verðum við vitni að mjög óvönduðum vinnubrögðum í mikilvægu máli.

Stærstu einstöku áhrifin af þessu frumvarpi felast örugglega í boðuðu veiðigjaldi. Ég vona að það sé einhver misskilningur í gangi á stjórnarheimilinu varðandi þá innheimtu vegna þess að eins og hún kemur fram fyrir þá sem hafa verið að túlka frumvarpið er hún algerlega óásættanleg. Hv. þm. Helgi Hjörvar staðfesti að hún kæmi reyndar illa við skuldsett fyrirtæki og það er svolítið öfugmæli miðað við að haldið er fram að greiða eigi fyrir nýliðun í greininni. Á sama tíma og það er gert, og þetta kemur verst við skuldsett fyrirtæki, hamlar það að sjálfsögðu nýliðun. Hverjir eru nýliðar í greininni? Og hverjir eru líklegastir til að skulda hæsta hlutfallið í rekstri sínum? Eru það ekki þeir sem eru að byrja, nýliðarnir sem hafa keypt sig inn á undanförnum árum? Nú á að skerða aflaheimildir þeirra, skilja þá eftir með skuldirnar og deila þessu út til annarra sem ekki hafa lagt í þá fjárfestingu. Er einhver sanngirni í því? Við sjáum þau dæmi sem hafa verið að koma fram í fjölmiðlum síðustu daga um hvaða áhrif veiðigjaldið mun hafa á einstök sjávarútvegsfyrirtæki. Við sjáum hvernig það fer með Ramma á Siglufirði, sæmilega stórt fyrirtæki þar sem hundruð starfa eru sögð í hættu, eftir yfirferð endurskoðanda er sagt að félagið breytist úr vel reknu félagi með ágæta framlegð og hagnað í félag sem mun tæplega ná að greiða af skuldum sínum. Í Morgunblaðinu í dag var líka talað við forsvarsmann lítillar útgerðar fyrir vestan sem bað um að fá að greiða bara af skuldum sínum áður en hann færi að greiða veiðigjaldið, annars færi sú útgerð hreinlega á hausinn.

Á sama tíma er kallað eftir fjárfestingu. Árleg þörf fjárfestinga í sjávarútvegi er talin vera um 20 milljarðar, uppsöfnuð fjárfestingarþörf greinarinnar er talin vera um 60 milljarðar. Ein grundvallarforsenda þess að koma hjólum efnahagslífsins af stað er að fjárfesting fari af stað í sjávarútvegi. Er það líklegt með þessu frumvarpi? Það verður að teljast harla ólíklegt. Það eru allir sammála um að greitt verði veiðileyfagjald en þar verður að taka tillit til margra þátta.

Ég ætla að rifja aðeins upp gömul atriði úr ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, þegar veiðileyfagjald var til umræðu fyrir nokkrum árum. Hann sagðist þeirrar skoðunar að veiðileyfagjald væri óskynsamlegur skattstofn og óréttlátur. Veiðileyfagjaldið væri einnig sérstakur skattur á grein sem væri í brýnni þörf fyrir fjárfestingu og uppbyggingu í framtíðinni. Veiðileyfagjaldið yrði til að hægja á greiðslum skulda fyrirtækjanna. Steingrímur nefndi einnig í rökum sínum að sjávarútvegurinn væri grein sem ætlast væri til að stæði sig betur en ríkisstyrktar greinar í nálægum löndum. Greinin þyrfti einnig á fjármunum að halda til endurnýjunar skipa og frystihúsa, til vöruþróunar og fleiri þátta. Loks nefndi þingmaðurinn að öflug sjávarútvegsfyrirtæki með góða afkomu væru helsta og nánast eina von landsbyggðarinnar. Tilhneigingu stjórnvalda til að hækka skattstofna sem einu sinni eru komnir á sagði Steingrímur vera vel þekkta. Hann klykkir síðan út með þeim orðum að segja að málið sé flóknara en þetta og það eigi að hætta þessu rugli. Þetta eru ummæli hæstv. sjávarútvegsráðherra í ræðu sem hann flutti um veiðileyfagjald fyrir nokkrum árum. Það kemur svo sem ekkert á óvart að hann skuli skipta um skoðun, það er ekki í fyrsta skipti.

Nú virðist sama staða vera komin upp og í fyrra. Menn eru mjög samhljóma í gagnrýni sinni á frumvarpið. Maður hefur heyrt í mörgum í sjávarútvegi og úti um allt land og hér á höfuðborgarsvæðinu og það virðist sem einróma samstaða sé að myndast bæði meðal sjómanna, meðal verkalýðsarmsins og útgerðarflokkanna, smábátasjómanna og útgerða stærri báta. Allir hafa mikið við þetta mál að athuga.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að krókaaflamarksbátar megi ekki lengur leigja úr stóra kerfinu. Krókabátum verður óheimilt að leigja heimildir af aflamarksskipum og flytja til sín hlutdeild. Hætta er á að með því verði rekstrargrundvelli kippt undan þeim útgerðum sem eru að byggja sig upp. Hvaða rök eru fyrir því að krókabátar sem hafa leigt þúsundir tonna af ýsu úr aflamarkinu á undanförnum árum geti það ekki? Það hefur verið miklu betra að ná ýsunni á þá báta og erfiðara að ná henni á stórum skipum, hún hefur verið miklu meira á grunnslóð. Með þessu er einnig gerð mikil atlaga að ferskfiskmörkuðum sem hafa verið að byggjast upp á undanförnum árum.

Samkvæmt frumvarpinu er ætlunin að skerða mjög verulega og jafnvel afleggja með öllu þær fiskveiðiheimildir sem nýttar hafa verið til byggðalegra, félagslegra og atvinnulegra úrræða á landsbyggðinni. Samt er þetta kallað landsbyggðarfrumvarp og sagt að það eigi að vera sérstaklega til að styrkja landsbyggðina. Ég held að fátt hafi verið lagt fram sem ógni eins mikið mörgum stöðum á landsbyggðinni. Engin tilraun er gerð til að meta afleiðingar þessa í þeim frumvörpum sem hafa verið lögð fram. Í greinargerð Daða Más Kristóferssonar kemur fram gagnrýni á þessi atriði og varað er mjög við skerðingu þessara heimilda áður en reynsla er komin á áhrif frumvarpsins. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Þá eru byggðaaðgerðir frumvarpsins ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að.“

Hér er hreinlega verið að taka veiðirétt frá veikustu svæðunum. Á Vestfjörðum nema þessar bætur í dag um 3.600 tonnum. Skerðingin mundi vera um 43% og hún er sambærileg í öðrum landshlutum.

Strandveiðum er ætlaður sess áfram þrátt fyrir að allt bendi til þess að þar eigi sér stað mikil sóun á verðmætum. Afurðir eru lélegri. Þetta er dýr sóknareining og í skýrslu þeirri sem fylgir með frá Daða Má segir meðal annars að líta megi á strandveiðar sem „sóun um fjórðungs þess aflamarks sem ætlað er að stuðla að farsælli samfélagsþróun og treysta atvinnu og byggð í landinu“. Það væri nær að styrkja byggðakvótann með þessu.

Leigupottur sem tekur til sín mjög stóran hluta aflaheimilda samkvæmt frumvarpinu á meðal annars að greiða leið nýliðunar. Þetta er gagnrýnt í greinargerð og talið erfitt að sjá hvernig leiguhluti geti náð þessum markmiðum þar sem ómögulegt er að reka útgerð sem eingöngu byggir á leigu úr pottinum. Aukning tekin í potta, skerðingar og aðilar eru skildir eftir með skuldir. Hvað gerist þegar aflaheimildir dragast saman, t.d. niður fyrir þessi 202 þús. tonn, og menn byggja eingöngu á leigu og hafa lagt í fjárfestingar út frá því? Verða leigupottarnir þá skertir algerlega við það?

Við höfum verið í fararbroddi í sjávarútvegi og náð ótvíræðum árangri en þetta frumvarp felur í sér mikla afturför eftir því sem manni sýnist við fyrstu skoðun. Það er byggðafjandsamlegt. Löggjöfin um stjórn fiskveiða hefur löngum verið deiluefni en sáttin sem náðist í endurskoðunarnefndinni varð um svokallaða samningaleið sem byggir á því að nýtendur auðlindarinnar geri formlega tímabundna samninga við ríkið um nýtingarréttinn. Í því felst fullt forræði ríkisins á fiskstofnum sem enginn deilir um að séu eign þjóðarinnar. Núverandi ríkisstjórn hefur haft einstakt tækifæri til að leiða til lykta langtímasátt um stjórn fiskveiða. Það þarf í raun einstakan klaufaskap og hæfileikaleysi til forustu til að klúðra því máli.

Fram undan er mikil vinna atvinnuveganefndar. Við fáum málið til okkar að lokinni þessari umræðu. Á síðasta ári var fyrra sjávarútvegsfrumvarpinu skilað nánast jafnhráu og þessu inn í þingið þar sem engin hagfræðileg úttekt hafði farið fram á því. Við munum öll hvernig fór um þá vegferð þegar hagfræðileg úttekt hafði farið fram og málið var dæmt algerlega ónothæft. Hér hefur farið fram ákveðin grunnskoðun, getum við sagt. Í þeirri greinargerð sem fylgir með frumvarpinu kemur fram hörð gagnrýni á málið. Það er auðvitað ámælisvert og stór spurning af hverju ekki er tekið tillit til þeirrar gagnrýni, af hverju ekki hefur verið farið yfir þá gagnrýni og frumvarpið lagfært að einhverju leyti með tilliti til hennar. Nei, við sjáum aftur sömu vinnubrögðin og við höfum svo oft orðið vitni að, ekki bara í þessu máli heldur í svo mörgum öðrum. Það á að göslast áfram og troða málum í gegn með einhverjum ótrúlegum hugmyndum.

Ekki er annað sæmandi en að standa vel að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er allt of mikið í húfi fyrir íslenskt samfélag til að sú villandi umræða sem hefur verið í gangi um þessi mál fái að halda áfram. Það er í raun mikill ábyrgðarhluti stjórnarþingmanna hvað það skín í gegnum alla þessa vinnu og þau frumvörp sem komið hafa frá þessari ríkisstjórn hvað þekkingarleysi manna í ríkisstjórnarflokkunum er mikið á þessari grein, skilningsleysi og þekkingarleysi. (Forseti hringir.) Það endurspeglast oft í þeirri mjög svo villandi umræðu og þeim villandi fullyrðingum sem haldið er að almenningi um þessi mál. Það er mikill ábyrgðarhluti, virðulegi forseti.